Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði í Kastljósi RÚV í kvöld að í febrúar í fyrra hefði bankastjórn Seðlabanka Íslands varað ríkisstjórnina því að íslenska bankakerfið „færi á hausinn“ í október - eins og raunin varð.
Davíð segir seðlabankann ekki hafa gerst sekan um nein ódæði og sagði þær breytingar sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, vildi gera með nýjum lögum, vera árás á bankann. Lögin væri sett fram í því skyni að „reka þennan eina mann“ eins og Davíð tók til orða um sjálfan sig, „og láta félaga hans fara með honum í fallinu.“
Davíð sagði seðlabankann hafa greint frá ótta sínum varðandi íslensku bankana lengi. Stjórnvöld hafi viðurkennt þetta; að í hvert skipti sem bankastjórn seðlabankans sagði þeim frá gríðarlegum áhyggjum af bankakerfinu, hafi þau kallað á bankastjóra viðskiptabankanna og þeir sagt að allt væri í lagi - að seðlabankinn færi með fleipur.
„Við létum það ekki duga. Við fengum til að mynda í febrúar einn færasta fjármálastöðugleikasérfræðing í Evrópu til að vinna fyrir okkur viðbragðsáætlun. Í þeirri áætlun gerum við ráð fyri því að bankakerfið fari á hausinn í október. Við sendum þá skýrslu til ríkisvaldsins,“ sagði Davíð í Kastljósinu og vitaði einnig til ýmissa minnisblaða og fundargerða þar sem bankastjórn SÍ hefði lýst vaxandi áhyggjum af stöðu mála.