Stærstu sveitarfélögin auka skattheimtu

mbl.is/ÞÖK

Fjölmennustu sveitarfélög landsins hafa flest hækkað útsvar frá fyrra ári. Útsvar hækkar í flestum sveitarfélögum um 0,25 prósentustig á milli ára, úr 13,03% í 13,28%.  Sorphirðugjöld hækka hjá flestum sveitarfélögum og nemur hækkunin allt að 50%.

Verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman upplýsingar um breytingar á útsvari og álagningu fasteignagjalda í 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins á árinu 2009.

Útsvarið hækkar mest frá fyrra ári í Reykjanesbæ um 0,58 prósentustig úr 12,7% í 13,28%. Fasteignaskattur er víðast óbreyttur frá fyrra ári en hækkar mest í Skagafirði um 16,5% og á Akureyri um 14%, að teknu tilliti til breytinga á fasteignamati. Af þeim gjöldum sem innheimt eru með fasteignagjöldum, hækka sorphirðugjöld mest frá fyrra ári. Sorphirðan hækkar í flestum sveitarfélögunum, en mest hækkun er í Skagafirði þar sem gjaldið hækkar um 50% á milli ára og á Akureyri og Akranesi þar sem hækkunin nemur 35%.

Útsvar

Ellefu af þeim 15 sveitarfélögum sem skoðuð voru, innheimta nú hámarks leyfilegt útsvar, 13,28% og hækkar útsvar víðast hvar um 0,25 prósentustig frá fyrra ári. Í Reykjavík og Mosfellsbæ er útsvarið 13,03%, í Garðabæ 12,46% og á Seltjarnarnesi 12,1%. Mest hækkun á útsvari á milli ára er í Reykjanesbæ sem hækkar útsvarsprósentuna um 0,58 úr 12,7% í 13,28%.

Fasteignagjöld

Til þess að átta sig á því hvernig fasteignagjöld breytast á milli ára er nauðsynlegt að skoða samhliða breytingar á álagningarhlutfalli sveitarfélaga og breytingar á fasteignamati íbúðarhúsnæðis í viðkomandi sveitarfélagi. Fasteignamatið er sá stofn sem notaður er til álagningar á fasteignasköttum, lóðarleigu, holræsagjaldi og í flestum sveitarfélögum einnig vatnsgjaldi fyrir kalt vatn. Sorphirðugjald sem innheimt er með fasteignagjöldum er hins vegar fast gjald sem er óháð fasteignamati eignarinnar.

Fasteignaskattur

Að teknu tilliti til breytinga á fasteignamati hækkar fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði mest á milli ára í Skagafirði um 16,5%, á Akureyri um 14% og í Vestmannaeyjum um 10%. Árborg er eina sveitarfélagið sem lækkar álagningarhlutfall fasteignaskatts á milli ára, en á móti vegur að fasteignarmat íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu hækkar um 5%. Að teknu tilliti til þessa lækkar fasteignaskattur í Árborg um 3,5% frá fyrra ári. Þá lækkar fasteignaskattur í fjölbýlishúsum í Hafnarfirði, Garðabæ, á Seltjarnar-nesi og Ísafirði um 5% á milli ára vegna lækkunar á fasteignamati.

Holræsagjald

Holræsagjald hækkar mest á milli ára á Akranesi, um 27%, í Kópavogi um 25% og í Vestmannaeyjum um 10%, að teknu tilliti til breytinga á fasteignamati. Á Akureyri lækkar holræsagjaldið um 12% vegna lækkunar á álagningarhlutfalli sveitarfélagins.

Lóðaleiga

Lóðaleiga hækkar mest á milli ára í Skagafirði, um 58% sem skýrist að mestu af hækkun á álagningu sveitarfélagsins. Í Kópavogi hækkar lóðaleiga um 15% vegna hækkunar á álagningu og í Vestmannaeyjum nemur hækkun lóðarleigunnar 10% sem skýrist af hækkun á fasteignamati.

Vatnsgjald

Vatnsgjald er hjá flestum sveitarfélögum innheimt sem hlutfall af fasteigamati en í Reykjavík, á Akureyri, Akranesi og í Vestmannaeyjum er innheimt fermetragjald auk fastagjalds fyrir notkun. Vatnsgjaldið hækkar mest á milli ára í Reykjavík og á Akranesi um 27%. Í Kópavogi hækkar vatnsgjaldið um 25%, á Akureyri um 15% og í Reykjanesbæ um 9% vegna hærri álagningar sveitarfélagsins og í Skagafirði nemur hækkunin 20% sem einnig má að mestu rekja til hækkunar á álagningu sveitar-félagins. Í Hafnarfirði lækkar vatnsgjaldið á milli ára vegna 13% lækkunar á álagningu sveitarfélagsins og í fjölbýlishúsum í Hafnarfirði bætist við lækkun á fasteigamati sem gerir það að verkum að vatnsgjaldið lækkar um 17%.

Talnaefni á vef ASÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert