Verslunin mun rísa á ný

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag að verslunin á Íslandi ætti við erfið vandamál að etja en langtímastaða hennar væri ekki verri en hún var fyrir efnahagshrunið. „Verslunin mun því rísa en óneitanlega verður ekki hátt risið á henni á næstu mánuðum og misserum," sagði Gylfi.

Rætt var utan dagskrár á Alþingi að ósk Ástu Möller, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um stöðu og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

Gylfi sagði að áætlað væri að samdráttur í neyslu yrði 30% á tímabilinu 2007-2009 og það kæmi óhjákvæmilega beint fram í því að umsvif í verslun dragist svipað saman. Við bættust vandamál vegna gengisþróunar og fleira og vandamál smásala komi niður á heildsölum og innlendum framleiðslufyrirtækjum. Þetta væri því talsvert fjall að klífa.

Gylfi sagði ljóst, að afskrifa þyrfti töluvert af eigin fé og skuldum verslunarfyrirtækja áður en yfir lyki. Það stæði upp á bankakerfið, að hafa forgöngu um það og mikilvægt væri að vel yrði þar staðið að málum og tryggt að fyrirtækjum eða eigendum verði ekki mismunað. Þá yrði að hafa samkeppnissjónarmið í huga og koma í veg fyrir að þessar aðgerðir auki samþjöppun í verslunarrekstri.

Ráðherra sagði, að ekkert svigrúm væri til sértækra aðgerða hins opinbera gagnvart versluninni en verslunin nyti góðs af öllum aðgerðum sem gripið væri til vegna fjármálahrunsins, svo sem uppbyggingu bankakerfisins, stöðugleika á fjármálamarkaði og aðgerða til að bæta stöðu heimilanna og  samskipti við erlenda aðila. 

Ásta spurði sérstaklega um hvort fyrir lægi áætlun um lækkun vaxta. Gylfi sagði að svo væri ekki en brýnt væri að lækka verðbólgu og skapa skilyrði til lækkunar vaxta og afnáms gjaldeyrishafta. Gylfi sagði, að gengi krónunnar hefði verið óeðlilega hátt og þurft að falla talsvert til að draga úr innflutningi og styrkja útflutning. Gengið hefði hins vegar lækkað of mikið og því væri eitthvað svigrúm fyrir hækkun krónunnar. 

Ásta sagði að mikið af aðgerðum í þágu verslunarinnar væri á valdi ríkisstjórnarinnar en fátt hefði verið um svör hjá ráðherranum. Ríkisstjórnin hefði varið miklu af sínum tíma í skipulagbreytingar á Seðlabankanum og undirbúa breytingar á stjórnarskránni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert