Tveir fulltrúar frá kosningaeftirliti ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, eru væntanlegir hingað til lands í næstu viku til að kynna sér undirbúning alþingiskosninganna sem fara fram í lok apríl. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort ÖSE verður með eftirlit með kosningunum sjálfum.
Að sögn Urðar Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er heimsókn fulltrúanna ekki kosningaeftirlit heldur er verið að kanna hvort grundvöllur er fyrir kosningaeftirliti.
„Þeir ætla að eiga fundi með hagsmunaaðilum, t.d. þeim sem koma að skipulagningu kosninganna, stjórnmálaflokkum og öðrum. Í framhaldinu ákveða þeir hvort þeir vilja fylgjast með kosningunum.“
Urður segir aðspurð þetta í fyrsta sinn sem Ísland fær slíka heimsókn í aðdraganda kosninga hér.