Íslensk stjórnvöld hafa hætt við áform um að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna þeirrar ákvörðunar breskra stjórnvalda að beita hryðjuverkalögum til að frysta eignir Landsbankans.
Breska blaðið Financial Times hefur eftir Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra, að engin áform séu af hálfu íslenskra stjórnvalda að leita til dómstóla vegna þessa máls.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar lýsti því yfir í janúar að verið væri að skoða hvort leita ætti til mannréttindadómstólsins þar sem aðgerðir Breta hefðu grafið undan íslenska bankakerfinu og átt þátt í hruni þess.
Financial Times segir, að ríkisstjórn Samfylkingar og VG vonist hins vegar til þess, að ákvörðun um að falla frá áformum um málaferli muni gefa til kynna að horft sé nú á málin af meira raunsæi en áður.
„Þetta er eitt af þeim málum, sem greiða þarf úr í tengslum við uppbyggingu fjármálakerfisins okkar og endurreisn ríkissjóðs," hefur blaðið eftir Gylfa.
FT segir að breska fjármálaráðuneytið hafi fagnað ummælum Gylfa og sagt að það hlakki til að eiga viðræður við Íslendinga um þau mál, sem séu óleyst. Bresk stjórnvöld leggja áherslu á, að Íslendingar leggi fram fé til að greiða lágmarks innlánatryggingu vegna Icesave-reikninga Landsbankans.
Í dálknum Alphaville í Financial Times segir, að með þessari niðurstöðu sé lokið einni hörðustu deilu Íslands og Bretlands frá því þorskastríðunum lauk á áttunda áratug síðustu aldar.