Huga þarf að börnum atvinnulausra

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

„Áhrif efnahagsþrenginga hafa ekki eingöngu áhrif á þá sem eldri eru. Börnin skipta hér miklu máli. Því miður hefur fjöldi barna sem eiga atvinnulausa foreldra aukist mikið. Í lok október áttu tæplega þrjú þúsund börn atvinnulausa foreldra en í lok síðasta mánaðar voru þau orðin rúmlega átta þúsund. Þar af eiga um fjögur þúsund og fjögur hundruð börn atvinnulausan föður en tæplega fjögur þúsund börn eiga atvinnulausa móður,“ sagði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra á málþingi nemenda í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands um áhrif efnahagsþrenginga á fjölskylduna.

Ráðherra lagði áherslu á að sérstaklega þyrfti að huga að börnum foreldra sem hafa misst atvinnu sína. Þegar litið er til þess hóps sem var án atvinnu í lok janúar voru 39% með börn á framfæri sínu samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar. 75% kvenna úr þessum hópi á aldrinum 30–49 ára voru með börn á framfæri og 56% karla.

„Við vitum að efnahagsþrengingar koma hvað verst niður á fjölskyldum sem búa við fátækt, veikindi eða félagsleg vandamál. Kvíði og áhyggjur geta valdið togstreitu og spennu sem dregur úr hæfni foreldra til að sinna börnum sínum. Rannsóknir hafa sýnt að bein tengsl eru milli fjárhagslegrar afkomu foreldra og andlegrar líðan barna. Vitað er að búi börn við fátækt eru þau margfalt líklegri en ella til að sýna mikil einkenni depurðar, þau fóta sig verr í skólakerfinu og þeim gengur verr í námi. Heilsufar þeirra er verra en annarra barna samkvæmt þeirra eigin upplifun, þeim hættir frekar við offitu, þau hreyfa sig minna og svona mætti áfram telja. Við vitum líka að upplausn í fjölskyldum og flókin fjölskyldutengsl vekja vanlíðan hjá börnum,“ sagði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Hún lagði áherslu á nauðsyn þess að samfélagið veiti fjölskyldum sem búa við erfiðar aðstæður sem mestan stuðning til að draga úr hættu á félagslegum vandamálum til skemmri og lengri tíma. Mikilvægt væri að byggja á því sem vel hefur verið gert annars staðar en varast vítin. Ásta Ragnheiður benti á að mikil þekking væri til staðar hér á landi sem bæri að nýta, nefndi umfangsmiklar rannsóknir sem hér hafa verið gerðar á högum barna og fjölskyldna og ræddi mikilvægi Rannsóknarseturs í barna- og fjölskylduvernd á þessu sviði.

Ásta Ragnheiður hefur beðið Rannsóknarsetur í barna- og fjölskylduvernd að koma með tillögur til félags- og tryggingamálaráðherra og Velferðavaktarinnar um það hvernig best megi standa vörð um hagsmuni barna í landinu, hvaða rannsóknir séu nú nauðsynlegar og hvaða atriðum þurfi sérstaklega að huga að í þessum efnum.

Ávarp Félags- og tryggingamálaráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka