Ofbeldi og einelti „á ekki að líðast innan skóla sem utan. Á hverjum tíma á það að vera samfélagslegt verkefni hvar sem menn búa að útrýma ofbeldi og einelti,“ segir í yfirlýsingu frá fræðsluyfirvöldum Árborgar. Yfirlýsingin er send í tilefni umfjöllunar Morgunblaðsins um eineltismál á Selfossi.
Yfirlýsing fræðsluyfirvalda Sveitarfélagsins Árborgar vegna umfjöllunar um eineltismál á Selfossi í Morgunblaðinu miðvikudaginn 24. febrúar.
„Ofbeldi og einelti er því miður til staðar í íslensku samfélagi og er Selfoss þar ekki undan skilið.
Ofbeldi og einelti á ekki að líðast innan skóla sem utan. Á hverjum tíma á það að vera samfélagslegt verkefni hvar sem menn búa að útrýma ofbeldi og einelti. Það að útrýma einelti og ofbelti er einnig stöðugt og sameiginlegt verkefni allra sem að skólamálum koma, yfirvalda, starfsmanna skóla og foreldra, að ógleymdum börnunum sjálfum. Sem betur fer hefur mikið áunnist í þessum efnum á undanförnum árum með góðri vinnu innan skólanna í Árborg sem og um allt land.
Á undanförnum árum hafa grunnskólar í Sveitarfélaginu Árborg unnið að því markmiði að útrýma einelti og nýtt til þess m.a. aðferð Olweusar gegn einelti. Einelti í grunnskólum birtist með misjöfnum hætti á milli skólaára.
Fræðsluyfirvöld í Árborg leggja mikla áherslu á að stöðugt sé unnið að því að koma í veg fyrir einelti innan grunnskólanna með viðurkenndum leiðum.
Á undanförnum árum hefur verið góð samvinna með sérfræðiþjónustu skóla og ráðgjafa Olweusar verkefnisins á Íslandi varðandi eftirfylgni þeirra tilfella sem upp hafa komið.
Fræðsluyfirvöld sveitarfélagsins tjá sig ekki að öðru leyti en hér að fram greinir varðandi skrif Morgunblaðsins miðvikudaginn 24. febrúar.“