Eftir Helga Bjarnason -
Ekki er verið að rannsaka mál nokkur hundruð einkahlutafélaga sem fengu sérstaka þjónustu í bankakerfinu, að því er fram kom í viðtali við Davíð Oddsson seðlabankastjóra í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi. Davíð sagði að þar kæmu meðal annars við sögu menn sem væru þekktir í þjóðlífinu og stjórnmálalífinu.
„Þetta hefur verið sett til hliðar. Mér finnst það fyrir neðan allar hellur hvernig þetta hefur verið gert,“ sagði Davíð.
Davíð Oddsson sagði frá því í viðtalinu að til sín kæmi fólk með ýmsar ábendingar um mál sem þyrfti að rannsaka nákvæmlega, með þeim orðum að það treysti engum öðrum í þessum málum. Nefndi hann einkahlutafélögin sem dæmi um slíkt. Gat hann þess að samskipti hefðu í sumum tilvikum ekki verið tekin upp á segulbönd þegar þessar fyrirgreiðslur voru veittar, heldur málin afgreidd í gegnum farsíma eða jafnvel farið á milli hæða til að fá bein fyrirmæli yfirmanna.