„Framan af haustinu og fram yfir áramót var markið sett á að framlengja kjarasamningana þrátt fyrir mikla verðbólgu," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), um tildrög þess að samtökin sömdu um frestun kjarasamninga fram í júní.
Þrátt fyrir frestun munu lágmarkslaun hækka í 157.000 kr. 1. mars nk., auk þess sem önnur ákvæði samninganna, m.a. lenging orlofs, koma til framkvæmda.
Gylfi segir tvo kosti hafa verið uppi eftir að Samtök atvinnulífsins (SA) lýstu því yfir um miðjan janúar, fyrir hönd sinna fyrirtækja, að þau treystu sér ekki til að standa við kjarasamningana.
Höfðu um tvennt að velja
„Við stóðum þá frammi fyrir tvennu, annars vegar að þrýsta fast á efndir á samningunum og þar með að framkalla uppsögn þeirra, eða þá hitt, að setja af stað einhverja skoðun á því með hvaða hætti við gætum komið til móts við atvinnurekendur. Við treystum okkur hins vegar ekki til að gera það án þess að hafa ríkisstjórn við borðið sem væri til í að koma eitthvað að málunum. Framan af höfðum við ríkisstjórn sem virtist ekki geta tekið ákvarðanir, sem leiddi til þess að hún féll."
Frestun gildi fram yfir kosningar.„Að hluta til komum við til móts við atvinnurekendur, að hluta til vinnum við okkur tíma til að fá nýja ríkisstjórn að borðinu. Út úr þessu getur orðið til þríhliða samstarf um að vinna að þessum gríðarlega vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir […] Það var yfirgnæfandi meirihluti sem vildi fara þessa leið."
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að gott samstarf hafi verið um þessa málalyktir.
Fóru fram á sveigjanleika
„Við fórum fram á það við ASÍ að fá meiri sveigjanleika. Alþýðusambandið hefur komið til móts við þetta. Niðurstaðan var sú að við myndum fresta endurskoðun samninganna fram í júní og glíma þá við málið.
Það má segja að við höfum verið mjög mikið að tala saman alveg frá því við skrifuðum upp á samninginn 17. febrúar í fyrra um framvindu mála, sérstaklega í haust þegar fallið varð í bönkunum. Við deilum um margt sömu sýn á þróunina, sem segja má að geri öll þessi samskipti og viðræður auðveldari," segir Vilhjálmur, sem telur að ella hefðu menn séð fram á launalækkanir.
„Það liggur alveg fyrir að fyrirtækin eru í mjög erfiðri stöðu. Ef við hefðum látið þessar hækkanir ganga fram nú er hætt við að það hefði kallað fram enn meira atvinnuleysi og að einhverju leyti komið fram í hærra verðlagi. Það væri bara ekki ráðlegt. Í einhverjum tilvikum hefðu laun verið lækkuð á móti hækkunum."