Þórsmörk kaupir Árvakur

Morgunblaðshúsið í Hádegismóum.
Morgunblaðshúsið í Hádegismóum. mbl.is/ÞÖK

Þórsmörk ehf., félag undir forustu Óskars Magnússonar, hefur gengið frá samkomulagi við Íslandsbanka  um kaup á nýju hlutafé Árvakurs, sem ætlunin er að gefa út  eftir að núverandi hlutafé félagsins hefur verið fært niður.

Auk Óskars eru Gísli Baldur Garðarsson, Guðbjörg Matthíasdóttir, Gunnar B. Dungal, Pétur H. Pálsson, Þorgeir Baldursson og Þorsteinn Már Baldvinsson aðilar að Þórsmörk. Til að dreifa eignaraðildinni enn frekar er ráðgert að fleiri hluthafar komi til liðs við félagið á síðari stigum. 

Við kaupin færist hlutafé fyrri eigenda niður í núll. Áskilnaður er um að samningar takist við aðra lánardrottna Árvakurs en Íslandsbanka á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að þegar niðurstaða fæst verði boðað til hluthafafundar.

Þrjú skuldbindandi tilboð bárust í Árvakur í síðustu viku og tók Íslandsbanki tvö þeirra til nánari skoðunar, tilboð ástralska fjárfestisins Steve Cossers og viðskiptafélaga hans, annars vegar, og tilboð frá Þórsmörk.

Samkvæmt upplýsingum frá Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka var á föstudag ljóst hver röð tilboðsgjafa var og þeim gerð grein fyrir stöðunni í stórum dráttum. Ekki var unnt að segja opinberlega frá röð þeirra fyrr en tilboðin höfðu verið kyrfilega lesin yfir af lögfræðingum og eftirlitsaðila og einstök atriði staðfest af hæstbjóðanda. Sú yfirferð leiddi ekki til breytinga á röð bjóðenda, enda tilboðin öll í samræmi við skilmálana.

Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs, segir að það sé fagnaðarefni fyrir starfsmenn og áskrifendur Morgunblaðsins og mbl.is að búið sé að eyða óvissu um framtíð félagsins. Þetta söluferli ætti að geta orðið fyrirmynd að endurskipulagningu annarra fyrirtækja af hálfu bankanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert