Veldur miklum vonbrigðum

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks gagnrýndi harðlega á Alþingi í dag, að Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra skuli hafa lýst því yfir í samtali við breska blaðið Financial Times, að  engin áform séu af hálfu íslenskra stjórnvalda að leita til dómstóla vegna hryðjuverkalaga sem beitt var gegn Íslandi. Varaformaður utanríkismálanefndar segir að ákvörðun fyrri stjórnar sé óbreytt.

Spurði Sigurður Kári Þórunni Sveinbjarnardóttur, varaformann utanríkismálanefndar þingsins, um skýringar og sagði að sér vitanlega hefði ekki verið rætt um þessa ákvörðun í ríkisstjórn eða í utanríkismálanefnd. Sagði Sigurður Kári að hagsmunir Íslendinga væru gríðarlegir af að fá niðurstöðu í málinu fyrir dómstólum.

Þórunn sagði, að sú ákvörðun ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, frá því í ársbyrjun 2009, stæði að leitað verði allra leiða til að leita réttar Íslands fyrir mannréttindadómstóli Evrópu. Þórunn sagði, að þeirri athugun væri ekki lokið en hún vissi ekki betur en vinna væri enn í gangi og ekki sé útilokað að farið verði í mál. 

Sagði Þórunn, að sú ríkisstjórn, sem tók við í janúar, sé að vinna áfram það mál, sem hófst í haust en m.a. þyrfti að semja um Icesave-skuldbindingarnar. Ekkert væri í raun nýtt í málinu nema að viðskiptaráðherra hefði látið þessi ummæli falla. „Menn hafa látið ýmis ummæli falla í erlendum fjölmiðum án þess að þau hafi verið rædd fyrirfram á Alþingi," sagði Þórunn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert