Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar og fyrrum borgarstjóri, segir að faglega hafi verið staðið að leigu húsnæðis fyrir starfsmenn borgarinnar í Borgartúni 10-12. Hann segir að samningurinn við Höfðatorg ehf. hafi verið mjög hagstæður, en meðtaltalsleiguverðið var 1.855 kr. á fermetra árið 2007.
Hann bendir á í samtali við mbl.is að í lok október sama ár, þegar Dagur B. Eggertsson var borgarstjóri, hafi verið gerður viðbótarleigusamningur þar sem meðaltalsleiguverðið hafi verið hærra, eða 2.318 kr. á fermetra.
Hann segir jafnframt að árið 2007 hafi eignir borgarinnar verið seldar þegar fasteignaverð var í sögulegu hámarki á Íslandi. „Eignirnar voru greiddar út í hönd í apríl 2007. Reykjavíkurborg hefur því notið verulegra fjármagnstekna þann tíma sem liðinn er frá því þær voru seldar, og salan því afar hagstæð,“ segir Vilhjálmur.
Hann bendir á að allar tillögur að málinu hafi verið unnar með fyrirvara um samþykki borgarráðs. Allt hafi því verið uppi á borðum.
Vilhjálmur tekur fram að starfsmenn borgarinnar hafi unnið mjög vel að undirbúningi málsins og vandað til allra verka í þeim tilgangi að „ná sem bestri niðurstöðu fyrir borgina“.
Vilhjálmur var beðinn um að svara nokkrum spurningum, með vísun í fundargerð borgarráðs frá 8. mars 2007, í tengslum við aðdraganda þess að borgin tók á leigu húsnæði við Höfðatorg.