Framkvæmdir við Landeyjahöfn ganga samkvæmt áætlun. Suðurverk hóf vinnu þar í september með uppsetningu vinnubúða og byggingu námuvegar, en í vor verður hafist handa við brimvarnargarða. Við verkið starfa nú 89 manns á tólf tíma vöktum.
Ætlunin er að efnisvinnsla í grjótnámu ljúki í apríl og þá verði allt efni komið á millilager. Markarfljótinu, sem nú rennur vestan við lagerinn, verður þá veitt austur fyrir og vinna hefst við flutning á efninu í brimvarnargarða Landeyjahafnar.
Við flutning á efni frá millilager í grjótgarða er áætlað að námubílarnir þurfi að þvera þjóðveginn 154 þúsund sinnum sem myndi valda töfum og auka slysahættu bæði fyrir verktakann og almenna umferð. Suðurverk hefur því ákveðið að gera undirkeyrslu undir þjóðveginn rétt vestan við Markarfljótsbrúna og hefur keypt til verksins stórt stálræsi. Mun undirkeyrslan verða tilbúin til notkunar þegar flutningar í garða hefjast og verður hún fjarlægð aftur að verkinu loknu, segir á sigling.is.
Verktakafyrirtækið Suðurverk hefur fest kaup á fjórum Komatsu HD465-7EO námutrukkum til að flytja stórgrýti úr grjótnámu í Eyjafjöllum niður á Landeyjarsand. Trukkarnir vega tæplega 50 tonn hver og geta borið önnur 50 tonn. aij@mbl.is