Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra segir að komugjöld á skilunardeild verði afnuminn. Þeim sem þurfa á blóðskilun að halda var með reglugerð sem tók gildi um síðustu áramót, gert að greiða komugjald á skilunardeild. Slíkt hefur ekki þekkst í þau 40 ár sem meðferð við lokastigsnýrnabilun hefur verið framkvæmd hér á landi.
Ögmundur Jónasson var einn framsögumanna á fundi Öryrkjabandalags Íslands og Landssamtakanna Þroskahjálpar í gærkvöld. Yfirskrift fundarins var "Heilbrigðismál í kreppu – hvað er framundan".
Ögmundur var spurður út í komugjöld eða innlagnargjöld á spítala en hann lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum að fella niður komugjöld sem sett voru á með reglugerð þann 1. janúar síðastliðinn. Gjöldin hefðu gefið af sér um 60-70 milljónir króna á ársgrundvelli.
Komugjöld á skilunardeild voru hins vegar ekki felld niður og spurði formaður Félags nýrnasjúkra Ögmund hverju það sætti. Ögmundur svarði því til að þau hefðu trúlega gleymst en hann myndi ganga í málið eins fljótt og auðið yrði.
Matthías Halldórsson, landlæknir, sem einnig var framsögumaður á fundinum sagði blóðskilun dæmi um heilbrigðisþjónustu sem ekki væri hægt að misnota. Enginn færi í slíka meðferð að gamni sínu og því stæðu engin rök fyrir gjaldtökunni.