Lausn Icesave-deilu grundvallarforsenda endurreisnar

Það er mat núverandi ríkisstjórnar, að lausn svonefndrar Icesave-deilu, með aðstoð alþjóðasamfélagsins og þeirra ríkja sem næst okkur standa, fyrst og fremst Norðurlandanna, sé ein af forsendum endurreisnar íslensks efnahagslífs. 

Þetta kemur fram í svari Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Í svarinu segir m.a., að í aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu felist rík réttindi en jafnframt ríkar skyldur. Litið sé á Ísland auk hinna EFTA/EES-ríkjanna sem nánustu samstarfslönd ESB-ríkjanna og þau séu einu ríkin utan sambandsins sem treyst hafi verið til fullrar þátttöku á innri markaði og fá notið þeirra sérréttinda sem sú þátttaka veiti.

Hvorki stofnanir ESB né nokkurt aðildarríki þess, þ.m.t. Norðurlöndin auk Noregs sem séí EES, hafi verið reiðubúin að fallast á að lagaóvissa ríki um það hvort ábyrgð á bankainnstæðum sé fyrir hendi. ESB-ríkin og framkvæmdastjórn ESB virtust í október sl. meta það svo að Ísland væri ekki í stakk búið að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt reglum EES og að í aðgerðum íslenskra stjórnvalda gæti falist mismunun á grundvelli þjóðernis. Bretland hafi raunar krafðist þess af framkvæmdastjórn ESB, að gripið yrði til sérstakra verndaraðgerða samkvæmt EES-samningnum gagnvart Íslandi, en það var þó ekki gert.

„ESB-ríkin hafa mjög skýra afstöðu til þess hverjar skyldur Íslands eru í máli þessu og hafa skoðanir verið látnar í ljós um að Ísland sé að virða að vettugi skyldur sínar á innri markaði sambandsins. Það gæti valdið uppnámi á EES-samningum. Að auki verður að geta þess að ein af forsendum fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeirra ríkja sem að henni koma var að samkomulag næðist við Breta, Hollendinga og Þjóðverja vegna uppgjörs innlána í útibúum íslenskra banka í viðkomandi ríkjum," segir í svarinu.

Icesave-málið var einnig til umræðu í fyrirspurnum til ráðaherra á Alþingi í dag. Þar sagði Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, að ný samninganefnd um Icesave-skuldbindingar Íslendinga, ætti í besta falli að rifta samningum um að Íslendingar axli ábyrgð á Icesave-reikningum og í besta falli að semja um að skuldin sé vaxtalaus.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að sjaldan verið settar í hendurnar nokkurri samninganefnd á vegum ríkisins jafn afdrifarík mál og það sem Icesave-nefndin hefði nú til meðferðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert