Lífríki Ísafjarðardjúps kannað

Vigur við Ísafjarðardjúp
Vigur við Ísafjarðardjúp mbl.is/RAX

Náttúrustofa Vestfjarða hefur í samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn fengið vísindastyrk til rannsókna á lífríki Ísafjarðardjúps að því fram kemur á vef Bæjarins besta. Rannsóknirnar felast í skipulegri sýnatöku og eru hugsaðar sem þriggja ára verkefni og fjármagnar styrkurinn fyrsta árið.

 „Um er að ræða samvinnuverkefni Matís og Nave ásamt fleiri aðilum þar sem við erum að kanna líffræðilegar aðstæður í þessum fjörðum og hvernig þeir standa umhverfislega. Við munum til að mynda kanna hvar kreppt gæti að þeim vegna t.d. fiskeldis, mengunar frá bæjum, landbúnaðar og hvers sem er“, segir dr. Þorleifur Eiríksson, forstöðumaður Náttúrustofunnar í samtalið við BB.

Rannsóknirnar felast í skipulegri sýnatöku og eru hugsaðar sem þriggja ára verkefni. Styrkurinn fjármagnar fyrsta árið. „Við erum ekki farin af stað en erum að gera áætlanir um hvernig verði staðið að þessu. Við byrjum bráðlega á þessu.“

Þorleifur segir styrkveitinguna vera mjög góðar fréttir fyrir stofuna. „Við höfum lengi sótt um og leitað eftir fjármagni á þessu verkefni og þetta er mjög góð byrjun á stóru máli. Það vantar heildarúttektir á lífríki þessara fjarða. Nauðsynlegt er að hafa þessar grunnupplýsingar til að skipuleggja nýtingu svæðisins og til að vita hvaða hættur eru til staðar. Auk þess eru þær mjög áhugaverðar vísindalega séð.“

Náttúrustofa Vestfjarða hóf starfsemi í ársbyrjun 1997. Hún er alhliða rannsóknar- og þjónustustofnun í náttúrufræðum á Vestfjörðum. Hún er rekin af sveitarfélögum á Vestfjörðum með stuðningi ríkisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert