Frumvarp um Seðlabanka Íslands var samþykkt á Alþingi nú undir kvöld með 33 atkvæðum þingmanna Samfylkingar, Vinstrihreyfingar-græns framboðs, Framsóknarflokks, Frjálslynda flokksins og Kristins H. Gunnarssonar gegn 18 atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks. 12 þingmenn voru fjarstaddir, þar af 8 þingmenn Sjálfstæðisflokks.
Lögin taka væntanlega gildi á miðnætti eftir staðfestingu forseta Íslands og birtingu í Stjórnartíðindum. Þau gera ráð fyrir því, að einn aðalbankastjóri verði skipaður við Seðlabankann og einn aðstoðarbankastjóri. Þá verði sett á stofn peningastefnunefnd, sem taki ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum.
Við gildistöku laganna er bankastjórn Seðlabanka Íslands lögð niður og þar með embætti þriggja bankastjóra sem sæti eiga í stjórninni, þ.m.t. embætti formanns bankastjórnar sem Davíð Oddsson gegnir. Á forsætisráðherra að auglýsa nýtt embætti seðlabankastjóra og nýtt embætti aðstoðarseðlabankastjóra laus til umsóknar eins fljótt og hægt er. Þá skal forsætisráðherra setja tímabundið menn í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra sem gegna embætti þar til skipað hefur verið í stöðurnar á grundvelli auglýsinga.
Að sögn Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu, verður nýr bankastjóri til bráðabirgða skipaður í fyrramálið.
Fulltrúar þingflokka gerðu grein fyrir afstöðu sinni til málsins þegar atkvæði voru greidd um frumvarpið í heild. Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingar, sagðist telja að þessi breyting á stjórnskipan Seðlabanka væri til mikilla bóta.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG og formaður viðskiptanefndar þingsins, sagði að þingið ætti að starfa eins og það hafi gert þegar fjallað var um frumvarpið. „Ég Hef þá trú að samþykkt frumvarpsins muni auka trúverðugleika efnahagsstefnunnar og auka trú á Seðlabankanum.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að frumvarpið væri í anda frumvarps sem framsóknarmenn lögðu fram á Alþingi í vetur. Það hefði einnig batnað til muna í meðförum þingsins. Þá hefði verið skynsamlegt að bíða eftir skýrslu starfshóps Evrópusambandsins. „Það sem við stöndum uppi með er vonandi seðlabanki, sem nýtur trausts ekki bara innanlands heldur einnig erlendis," sagði hann.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að þingmenn flokksins styðji að gerðar séu breytingar á lagaumhverfi Seðlabankans. Þeir hefðu reynt að leggja gott til málanna og stutt breytingartillögur við 2. umræðu um frumvarpið sem hefðu verið til bóta. Hins vegar hefðu breytingartillögur, sem þingmenn flokksins lögðu fram verið felldar. Þá hefði nú við síðustu umræðu um frumvarpið í dag verið samþykkt breytingartillaga, sem kynni að vera stórskaðleg. Því hefðu þingmenn flokksins ákveðið að greiða atkvæði gegn frumvarpinu.
Breytingartillagan, sem Birgir vísaði til, var samþykkt með 33 atkvæðum gegn 18. Hún var frá meirihluta viðskiptanefndar um að peningastefnunefnd, sem sett verður á stofn við Seðlabankann, skuli gefa opinberlega út viðvaranir þegar tilefni er, ef nefndin metur það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógna fjármálakerfinu.
Álfheiður sagði að ekki væri um að ræða grundvallarbreytingu á eðli peningastefnunefndar heldur væri verið að tryggja gegnsæi í störfum nefndarinnar en slíkt hefði skort í fjármálalífi Íslands á undanförnum árum. Höskuldur sagði að það hefði verið til bóta ef slíkt ákvæði hefði verið í eldri lögum. Birgir sagði hins vegar að enginn gerði sér grein fyrir því hvaða áhrif þessi breytingartillaga muni hafa.