Seðlabankafrumvarpið samþykkt

Seðlabankafrumvarpið var samþykkt á Alþingi nú undir kvöld.
Seðlabankafrumvarpið var samþykkt á Alþingi nú undir kvöld. mbl.is/Golli

Frum­varp um Seðlabanka Íslands var samþykkt á Alþingi nú und­ir kvöld með 33 at­kvæðum þing­manna Sam­fylk­ing­ar, Vinstri­hreyf­ing­ar-græns fram­boðs, Fram­sókn­ar­flokks, Frjáls­lynda flokks­ins og Krist­ins H. Gunn­ars­son­ar gegn 18 at­kvæðum þing­manna Sjálf­stæðis­flokks.  12 þing­menn voru fjar­stadd­ir, þar af 8 þing­menn Sjálf­stæðis­flokks.

Lög­in taka vænt­an­lega gildi á miðnætti eft­ir staðfest­ingu for­seta Íslands og birt­ingu í Stjórn­artíðind­um. Þau gera ráð fyr­ir því, að einn aðal­banka­stjóri verði skipaður við Seðlabank­ann og einn aðstoðarbanka­stjóri. Þá verði sett á stofn pen­inga­stefnu­nefnd, sem taki ákv­arðanir um beit­ingu stjórn­tækja bank­ans í pen­inga­mál­um.

Við gildis­töku lag­anna er banka­stjórn Seðlabanka Íslands lögð niður og þar með embætti þriggja banka­stjóra sem sæti eiga í stjórn­inni, þ.m.t. embætti for­manns banka­stjórn­ar sem Davíð Odds­son gegn­ir. Á for­sæt­is­ráðherra að aug­lýsa nýtt embætti seðlabanka­stjóra og nýtt embætti aðstoðarseðlabanka­stjóra laus til um­sókn­ar eins fljótt og hægt er. Þá skal for­sæt­is­ráðherra  setja tíma­bundið menn í embætti seðlabanka­stjóra og aðstoðarseðlabanka­stjóra sem gegna embætti þar til skipað hef­ur verið í stöðurn­ar á grund­velli aug­lýs­inga.

Að sögn Kristjáns Kristjáns­son­ar, upp­lýs­inga­full­trúa í for­sæt­is­ráðuneyt­inu, verður nýr banka­stjóri til bráðabirgða skipaður í fyrra­málið.

Full­trú­ar þing­flokka gerðu grein fyr­ir af­stöðu sinni til máls­ins þegar at­kvæði voru greidd um frum­varpið í heild. Lúðvík Berg­vins­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar, sagðist telja að þessi breyt­ing á stjórn­skip­an Seðlabanka væri til mik­illa bóta.

Álf­heiður Inga­dótt­ir, þingmaður VG og formaður viðskipta­nefnd­ar þings­ins, sagði að þingið ætti að starfa eins og það hafi gert þegar fjallað var um frum­varpið. „Ég Hef þá trú að samþykkt frum­varps­ins  muni auka trú­verðug­leika efna­hags­stefn­unn­ar og auka trú á Seðlabank­an­um.

Hösk­uld­ur Þór­halls­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks, sagði að frum­varpið væri í anda frum­varps sem fram­sókn­ar­menn lögðu fram á Alþingi í vet­ur. Það hefði einnig batnað til muna í meðför­um þings­ins. Þá hefði verið skyn­sam­legt að bíða eft­ir skýrslu starfs­hóps Evr­ópu­sam­bands­ins. „Það sem við stönd­um uppi með er von­andi seðlabanki, sem nýt­ur trausts ekki bara inn­an­lands held­ur einnig er­lend­is," sagði hann.

Birg­ir Ármanns­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks, sagði að þing­menn flokks­ins styðji að gerðar séu breyt­ing­ar á lagaum­hverfi Seðlabank­ans. Þeir hefðu reynt að leggja gott til mál­anna og stutt breyt­ing­ar­til­lög­ur við 2. umræðu um frum­varpið sem hefðu verið til bóta. Hins veg­ar hefðu breyt­ing­ar­til­lög­ur, sem þing­menn flokks­ins lögðu fram verið felld­ar. Þá hefði nú við síðustu umræðu um frum­varpið í dag verið samþykkt breyt­ing­ar­til­laga, sem kynni að vera stórskaðleg. Því hefðu þing­menn flokks­ins ákveðið að greiða at­kvæði gegn frum­varp­inu.

Breyt­ing­ar­til­lag­an, sem Birg­ir vísaði til, var samþykkt með 33 at­kvæðum gegn 18. Hún var frá meiri­hluta viðskipta­nefnd­ar um að pen­inga­stefnu­nefnd, sem sett verður á stofn við Seðlabank­ann, skuli gefa op­in­ber­lega út viðvar­an­ir þegar til­efni er, ef nefnd­in met­ur það svo að al­var­leg hættu­merki séu til staðar sem ógna fjár­mála­kerf­inu.   

Álf­heiður sagði að ekki væri um að ræða grund­vall­ar­breyt­ingu á eðli pen­inga­stefnu­nefnd­ar held­ur væri verið að tryggja gegn­sæi í störf­um nefnd­ar­inn­ar en slíkt hefði skort í fjár­mála­lífi Íslands á und­an­förn­um árum. Hösk­uld­ur sagði að það hefði verið til bóta ef slíkt ákvæði hefði verið í eldri lög­um. Birg­ir sagði hins veg­ar að eng­inn gerði sér grein fyr­ir því hvaða áhrif þessi breyt­ing­ar­til­laga muni hafa. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert