Staðfestir rökin fyrir evrunni

Matti Vanhanen og Fredrik Reinfeldt ræðast við á þinginu.
Matti Vanhanen og Fredrik Reinfeldt ræðast við á þinginu. mbl.is/Ragnar Axelsson

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir þróun undanfarna mánuða staðfesta rök sín og annarra fylgismanna evruupptöku fyrir því að stefna beri að upptöku evrunnar.

Reinfeldt lýsti þessari skoðun sinni í viðtali við fréttavef Morgunblaðsins á norrænu hnattvæðingarþingi fyrr í dag.

Vísaði forsætisráðherrann til þess að í fyrstu virtust ýmsir kostir því samhliða að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil sem hægt væri að aðlaga gengið á andspænis slíku efnahagshruni.

Nú hefði hins vegar komið í ljós að kostir evrunnar vegi þyngra.

Þá rifjaði hann upp að Svíar hefðu hafnað evrunni í atkvæðagreiðslu árið 2003 og að það væri samstaða um að taka ekki málið aftur upp fyrr en árið 2014. Eins og staðan væri nú hefði bilið á milli þeirra sem eru andvígir evrunni og henni fylgjandi farið minnkandi. 

Áhrif fjármálakreppunnar í Svíþjóð hefðu minnkað þetta bil.

Inntur eftir því hvort eftirmálar kreppunnar myndu hafa áhrif á rökræður um hvort taka skuli upp evruna í Svíþjóð svarar Reinfeldt játandi.

„Ég held að kreppan hafi þegar haft þessi áhrif. Það sem við horfum fram á er það sem ég og aðrir sem fórum fyrir já-herferðinni [fyrir evruupptöku] sögðum við sænskan almenning. Það er gott að hafa eigin gjaldmiðil í smáu, opnu hagkerfi þegar vel árar. Þegar hagkerfið er hins vegar undir þrýstingi andspænis almennri niðurveiflu er það viðkvæmara. Það sem líklega fylgir í kjölfarið er fall í gengi gjaldmiðilsins. Nú hefur þetta gerst. Svíar sjá þetta nú líka. Það er sennilega skýringin á því að stuðningur við evruna fer vaxandi. Meirihluti Svía er þó henni enn andvígur. Þetta hefur því haft sín áhrif á almenningsálitið,“ segir Reinfeldt, sem telur að kreppan muni hafa enn meiri áhrif á sænska hagkerfið.

Þróunin hafi því styrkt rökin fyrir evruupptöku.

„Hún hefur sýnt fram á að okkar sterkasta röksemd var rétt. Við höfum hins vegar gripið til aðgerða í samræmi við smæð gjaldmiðils okkar og sýnt ábyrgð og aðhald í ríkisrekstri. Svo við höfum leitað jafnvægis [...] til að viðhalda samkeppnishæfni hagkerfisins. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.“

Finnski forsætisráðherrann Matti Vanhanen lét hins vegar aðspurður nægja að láta þau orð falla að smærri atvinnurekendur í Finnlandi væru ánægðir með hafa evruna í því ástandi sem nú væri uppi.

Umbreytingin löngu hafin 

Vikið var að möguleikum til aukinnar samvinnu í loftslagsmálum á þinginu.

Aðspurður um hvort sænska hagkerfið yrði aðlagað að því markmiði að draga úr losun koldíoxíðs sagðist Reinfeldt telja að hagkerfið hefði þegar tekið þá stefnu á áttunda áratugnum.

Svíþjóð væri í hópi fárra landa sem stæðu við skuldbindingar Kýótó-samningsins. Hagkerfið, sem hefði þróast æ meir í þá átt að verða að þjónustuhagkerfi, hefði vaxið um hátt í 50 prósent frá 1990 á sama tíma og dregið hefði úr losun koldíoxíðs um 90 prósent.

Þessi þróun myndi halda áfram.

Dæmi væri þróunarvinna Scania sem hann hefði skoðað í heimsókn sinni til fyrirtækisins. Þar væri leitast við að draga úr eldsneytisnotkun flutningabifreiða með tækniþróun.

Hvað varðar róttækari skref eins og uppbyggingu vetnisdreifikerfis og innleiðingu rafbílaflota sagði forsætisráðherrann stjórn sína hafa sett fram áætlun fyrir áramót sem feli í sér að þremur milljörðum sænskra króna verði varið í samstarfsverkefni við innlendan bílaframleiðanda um þróun og smíði rafbíla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka