Að meðaltali hafa um tveir útlendingar á dag samband við utanríkisráðuneytið til að koma á framfæri mótmælum gegn hvalveiðum. Flestir senda tölvupóst en tiltölulega fáir hringja, að sögn Urðar Gunnarsdóttur upplýsingafulltrúa.
Frá áramótum hafa átta manns komið á framfæri mótmælum við sendiráð Íslands í London og einn bættist við í síðustu viku. Sendiráðið í Berlín hefur tekið á móti 14 mótmælum, þar af tvennum í síðustu viku. Í liðinni viku höfðu fjórir samband við sendiráð Íslands í Washington til að mótmæla hvalveiðum og er heildarfjöldi mótmæla þar með kominn upp í sex. Sjávarútvegsráðuneytinu hafa borist fjögur mótmælabréf frá útlöndum og tvær stuðningsyfirlýsingar.