Upplýsinga frá fjórum stærstu bílafjármögnunarfyrirtækjunum benda til að um 25 þúsund lán hafi verið fryst eða þeim skuldbreytt en alls eru ríflega 70 þúsund ökutæki skráð í eigu bílafjármögnunarfyrirtækja samkvæmt tölum frá Umferðarstofu.
Heildarupphæð lánanna fæst ekki gefin upp en þó má áætla að miðað við meðallán upp á rúmar tvær milljónir króna séu um 150 milljarðar útistandandi í bílalánum. Langflest eru þau lán tekin í erlendri mynt. Erlendu bílalánin eru í mörgum tilvikum komin upp fyrir verðmæti bílanna eftir gengisfall íslensku krónunnar á síðustu mánuðum. Mánaðarlegar afborganir þeirra sem ekki hafa látið frysta eða skuldbreyta bílalánum sínum hafa í mörgum tilvikum tvöfaldast og vel það á aðeins tæpum tveimur árum.
Með frystingu á afborgunum af lánunum eða skuldbreytingum hefur lengst í þeim um nokkra mánuði. Mismunandi úrræði hafa verið í boði hjá bílafjármögnunarfyrirtækjunum og ekki þau sömu hjá þeim öllum.
Samkvæmt upplýsingum frá þeim hafa nokkur hundruð bíla verið tekin til baka með vörslusviptingu. Fyrirtækin segja að engir samningar séu gerðir við einstakar bílasölur, heldur hafi allir bílasalar heimild til að selja þá. Þrálátum orðrómi um að samið hafi verið við ákveðna aðila er vísað á bug.