Fréttaskýring: Bankastjórinn beið átekta á hóteli

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, ræddi í morgun við nýja seðlabankastjórann …
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, ræddi í morgun við nýja seðlabankastjórann en Stoltenberg er staddur hér á landi. mbl.is/Kristinn

Svein Harald Øygard, sem í morgun var settur seðlabankastjóri til bráðabirgða, hefur beðið á hóteli í Reykjavík frá því á mánudag eftir að Alþingi afgreiddi ný lög um Seðlabankann. Ríkisstjórnin leitaði víða að bráðabirgðabankastjóra. Eftir ábendingu norskra ráðherra, var ákveðið að ræða við Øygard. Þrír fyrrverandi bankastjórar eiga rétt á biðlaunum í 6 og 12 mánuði en Ingimundur Friðriksson hefur þegar afþakkað biðlaun.

Frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands, skipulag yfirstjórnar og peningastefnunefnd, var samþykkt á Alþingi í gærkvöld með 33 atkvæðum gegn 18. Samkvæmt lögunum er bankastjórn Seðlabanka Íslands lögð niður og þar með embætti þriggja bankastjóra sem sæti eiga í stjórninni, þ.m.t. embætti formanns bankastjórnar.

Forsætisráðherra skal svo fljótt sem við verður komið auglýsa nýtt embætti seðlabankastjóra laust til umsóknar samkvæmt ákvæðum laganna.

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 4. febrúar og kom það til fyrstu umræðu tveimur dögum síðar. Ríkisstjórnin ætlaðist til að málið fengi hraða afgreiðslu í þinginu. Í því ljósi var þegar farið að leita að einstaklingi sem gegnt gæti embætti seðlabankastjóra til bráðabirgða, eða þar til staðan hefði verið auglýst og ráðið í hana samkvæmt nýju lögunum.

Norskir ráðherrar mæltu með á Øygard

Ríkisstjórnin leitaði víða fyrir sér, meðal annars á Norðurlöndunum. Þegar Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs heimsótti Ísland í byrjun febrúar, innti Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra hana eftir því hvort hún gæti bent á seðlabankastjóraefni. Halvorsen benti á Øygard. Á vef BT segir að Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, hafi gefið Øygard sín bestu meðmæli.

Kristin Halvorsen sendi í morgun Svein Harald Øygard hamingjuóskir. Segir Halvorsen í yfirlýsingu, að Øygard búi yfir mikilli reynslu og þekkingu og sé réttur maður á réttum stað í þessu krefjandi starfi.

Nýi seðlabankastjórinn kom raunar til landsins á mánudag og hefur því beðið átekta á hóteli í Reykjavík í tæpa viku meðan Alþingi ræddi seðlabankafrumvarpið.

Biðlaunaréttur í 6 og 12 mánuði

Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri baðst lausnar úr embætti seðlabankastjóra að kvöldi 7. febrúar. Jafnframt afþakkaði Ingimundur boð um að ganga til viðræðna við stjórnvöld um starfslokagreiðslur.

Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar, urðu hins vegar ekki við beiðni forsætisráðherra um að víkja úr embætti. Þegar Alþingi hafði samþykkt ný lög um Seðlabankann í gærkvöld og forseti staðfest lögin, var bankastjórunum tveimur sent bréf með formlegri tilkynningu um að stöður þeirra hefðu verið lagðar niður.

Þar sem stöður seðlabankastjóra eru lagðar niður vegna skipulagsbreytinga, gilda ákvæði um biðlaunaréttindi í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Samkvæmt því á Eiríkur Guðnason, rétt til 12 mánaða biðlauna, sem myndast eftir 15 ára störf í þjónustu ríkisins sem embættismenn. Eins og áður segir afþakkaði Ingimundur Friðriksson starfslokagreiðslur. Davíð Oddsson á biðlaunarétt til 6 mánaða þar sem starfstími alþingismanna og ráðherra telst ekki með þjónustualdri hjá ríkinu vegna biðlaunaréttar vegna þess að þeir teljast ekki vera embættismenn heldur falla undir lög um þingfararkaup.

Tímabundinn launakostnaður Seðlabankans vegna þess er áætlaður um 44 milljónir króna eftir því sem segir í greinargerð með seðlabankafrumvarpinu og var þá við það miðað að allir þrír tækju biðlaun. Ingimundur var hættur í Seðlabankanum áður en frumvarpið var samþykkt og þiggur ekki biðlaun. Ekki liggur fyrir hvort Eiríkur eða Davíð þiggja biðlaun.

Til lengri tíma litið má reikna með að fækkun bankastjóra um tvo lækki launakostnað Seðlabankans um 32 milljónir á ári miðað við að laun nýs seðlabankastjóra verði svipuð og laun formanns núverandi bankastjórnar.

Svein Harald Øygard og Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs.
Svein Harald Øygard og Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert