Engin viðbrögð við varúðarorðum

Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson koma af fundi í …
Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson koma af fundi í stjórnarráðinu. mbl.is/Brynjar Gauti

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segir orð Davíðs Oddssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra, um að hann hafi varað eindregið við hruni bankakerfisins ekki vera alls kostar rétt, og fari í öllum meginatriðum gegn því sem fram kom í opinberum gögnum frá seðlabankanum um stöðu íslenska bankakerfisins í fyrra.

Þá hafi seðlabankinn ekki brugðist við „eindregnum varúðarorðum“ frá forsvarsmönnum Kaupþings, í apríl í fyrra, um að bankakerfið íslenska stæði ekki nægilega traustum fótum, þrátt fyrir að árangur hafi náðst í viðspyrnu gegn skortsölum sem hafi veikt stoðir kerfisins.

„Ég og Hreiðar Már [Sigurðsson innsk. blm.] sátum fundi með bæði Geir [H. Haarde] og síðan, að hans tillögu, með seðlabankastjóra þar sem við greindum frá áhyggjum okkar af stöðu mála. Það er skemmst frá því að segja, að það var ekki brugðist við okkar varúðarorðum með neinum hætti. Seðlabankanum tókst ekki að útvega sér fé, sem var algjörlega nauðsynlegt, og því versnaði staðan í bankakerfinu jafnt og þétt eftir því sem leið á árið,“ sagði Sigurður í samtali við mbl.is.

Sigurður sendi 9. apríl í fyrra bréf til Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, þar sem hann lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðu mála hér á landi. Í kjölfarið, sátu Sigurður og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, fundi með Geir og Davíð. „Það var ekki brugðist við okkar áhyggjum með neinum hætti, sem er eiginlega með ólíkindum í ljósi þess að Kaupþing var langsamlega stærsti banki landsins. Áhyggjurnar voru líka á rökum reistar, eins og síðar kom í ljós.“

Í bréfinu sem Sigurður sendi Geir og Davíð er sagt að yfirlýsingar forsætisráðherra, um íslenska fjármálakerfið, hefðu haft góð áhrif á umtal um stöðu kerfisins. Hins vegar væri staðan „brothætt“ og brýnt væri að bregðast við með afgerandi hætti. Illa gæti farið ef ekkert yrði gert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka