Grímur í 1. - 2. sæti í NV

Grímur Atlason.
Grímur Atlason.

Grímur Atlason, sveitarstjóri í Dalabyggð, gefur kost á sér í 1.-2. sæti í forvali Vinstri grænna, í Norðvesturkjördæmi,  vegna alþingiskosninganna 25. apríl næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Grími.


Grímur er 38 ára gamall, þroskaþjálfari að mennt og starfaði lengi sem slíkur í Reykjavík og í Danmörku. Þá starfaði hann um skeið við félagsþjónustu hjá Reykjavíkurborg og rak um árabil fyrirtæki sem stóð fyrir tónlekum á vegum fjölmargra innlendra og erlendra tónlistarmanna og heldur hina árlegu tónlistarhátíð Innipúkann í Reykjavík um verslunarmannahelgar.


Sumarið 2006 tók Grímur við starfi sem bæjarstjóri í Bolungarvík. Hann er eini bæjarstjórinn  í sögu Bolungarvíkur sem ekki hefur starfað í skjóli Sjálfstæðisflokksins.
Frá árinu 2008 hefur Grímur verið sveitarstjóri í Dalabyggð. 
Grímur Atlason segir: 
„Ég legg áherslu á fjölbreytni í atvinnulífi á landsbyggðinni og umhverfismál og mun beita mér af afli gegn hugmyndum um olíuhreinsistöð og aðra mengandi stóriðju.  Ég vil að kvótakerfið verði endurskoðað og að kerfi sem byggir upp samfélagið á landsbyggðinni komi í stað fyrir núverandi kerfi  sem er bæði ósjálfbært og hefur sogið kraftinn úr landsbyggðinni mörg undanfarin ár. Tími þess er liðinn. 
Ég legg áherslu á þau miklu gæði og hlunnindi sem eru fólgin í lífinu á landsbyggðinni. Ég mun áfram beita mér fyrir aukinni fjárfestingu í grunnþjónustu á landsbyggðinni og eflingu félagsþjónustu og landbúnaðar. Það var ekki landsbyggðin sem efndi til ofþenslunnar og það þarf að standa vörð um að landsbyggðin verði ekki látin bera of þungar byrðar á þeim samdráttartímum sem framundan eru,“ er haft eftir Grími í tilkynningunni.


Grímur Atlason var á árum áður virkur í starfi VG í Reykjavík og skipaði 4. sætið á lista flokksins í Reykjavík norður við alþingiskosningarnar 2003.
Þá hefur hann getið sér gott orð sem tónlistarmaður og bassaleikari og er nú um helgina í Bolungarvík að hljóðrita nýja plötu með félögum sínum í hljómsveitinni Ekki þjóðin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert