Hagnaður af rekstri Íslandspósts hf. nam 79 milljónum króna á árinu 2008. Til samanburðar nam hagnaðurinn rúmlega 230 milljónum árið 2007. EBITDA félagsins var um 522 milljónir króna. Heildartekjur félagsins á síðasta ári námu rúmum 6,6 milljörðum króna og höfðu aukist um 7% frá fyrra ári.
Heildareignir voru 4,9 milljarðar króna í árslok 2008 og eigið fé nam 2,6 milljörðum króna. Félagið greiddi 90 milljónir króna í arð til ríkissjóðs á árinu. Arðsemi eigin fjár var 3,1% en 9,1% árið 2007.
Íslandspóstur fagnaði 10 ára afmæli sínu í fyrra. Í tilkynningu segir að félagið hafi gengið í gegnum miklar breytingar frá stofnun bæði hvað varðar skipulag og fyrirkomulag rekstrar, sem hafa allar haft þann megintilgang að efla þjónustu við viðskiptavini og bæta aðstöðu og aðbúnað viðskiptavina og starfsmanna sem og að tryggja rekstrargrundvöll Íslandspósts til framtíðar.
Félagið hefur skilað hagnaði frá árinu 2002 en fram að því hafði póstrekstur verið rekinn með verulegu tapi. Rekstur félagsins fór vel af stað á árinu 2008. Áætlanir um rekstur og afkomu gengu vel eftir fram að hausti en seinasti ársfjórðungur bar merki þess samdráttar sem varð í íslensku efnahagslífi í kjölfar hruns fjármálafyrirtækja. Þegar í stað var brugðist við breyttum rekstrarskilyrðum og hafa aðgerðir til lækkunar rekstrarkostnaðar auk sérstakrar hagræðingar í dreifingu pakka og rúmfrekra bréfa tryggt jákvæða afkomu á árinu 2008.
Á árinu 2008 var áfram unnið að því að treysta undirstöður félagins m.a. með því að byggja upp og endurbæta starfsstöðvar. Í maí var skóflustunga tekin að nýju pósthúsi á Sauðárkróki, sem áformað er að taka í notkun nú í sumarbyrjun, og síðar í sama mánuði var nýtt pósthús tekið í notkun á Akranesi.
Á síðari hluta ársins voru nýjar og glæsilegar póstafgreiðslur opnaðar í Garðabæ, á Seltjarnarnesi og í Mjóddinni í Reykjavík og starfsemi hófst á ný á pósthúsunum í Keflavík og í Ólafsvík eftir umfangsmiklar endurbætur. Með þessum framkvæmdum hefur aðstaða batnað til mikilla muna, og leggja þær með öðru grunninn að frekari hagræðingu í rekstri fyrirtækisins.