Gunnlaugur Bragi Björnsson og Kristín Helga Magnúsdóttir halda í dag til Palestínu á vegum Ungmennahreyfingar Rauða krossins til að kynna sér aðstæður jafnaldra sinna þar. Rauði kross Íslands hefur í samstarfi við Rauða hálfmánann í Palestínu unnið að verkefnum í sálrænum stuðningi fyrir börn og ungmenni síðan árið 2002.
Gunnlaugur og Kristín munu ásamt sex öðrum ungmennum frá Rauða kross félögum í Danmörku, Frakklandi og Ítalíu kynna sér verkefni Rauða krossins og Rauða hálfmánans um sálrænan stuðning en átökin í landinu valda mikilli streitu og röskun í daglegu lífi barna og unglinga í Palestínu. Ungmennin munu heimsækja skóla, heimili og fjölskyldur og kynnast lífi jafnaldra sinna í skugga átakanna í landinu á vikuferð sinni. Þau snúa heim 7. mars.
Rauða kross ungmennin átta munu svo kynna ástandið og verkefni Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Palestínu hvert í sínu landi með kynningarátaki í skólum og fjölmiðlum. Mannúðarskrifstofa Evrópu (ECHO) styrkir kynningarverkefnið.
Þau Gunnlaugur og Kristín munu skrifa daglega um reynslu sína á blogginu palestinufarar.blog.is. Einnig verður hægt að ná í þau í síma með því að hafa samband við Sólveigu Ólafsdóttur, sviðsstjóra útbreiðslusviðs Rauða kross Íslands, sem er með þeim í för í síma 893 9912.
Gunnlaugur og Kristín eru bæði fædd árið 1989. Gunnlaugur varð stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð fyrir tæpu ári, en Kristín, sem er formaður nemendafélagsins í Borgarholtsskóla, útskrifast nú í vor.