„Það er bagalegt að ekki hafi verið leyst úr þessu ennþá. Það verður að fara flýta því að málin leysist,“ segir Arnar Sigmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, um gjaldmiðlaskiptasamninga sem 15 lífeyrissjóðir hafa ekki gert upp enn í samvinnu við skilanefndir bankanna.
Deilt hefur verið um við hvaða gengisvístölu skal miða þegar kemur að því að gera samningana upp. Samtals eiga gömlu bankarnir kröfur á lífeyrissjóðina upp á um 70 milljarða króna miðað við vísitöluna 175, sem var á gjaldeyrismarkaði þegar Landsbankinn var tekinn yfir af skilanefnd Fjármálaeftirlitsins, fyrstur bankanna, 6. október. Lífeyrissjóðirnir gerðu samningana við bankanna til að verjast sveiflum á gjaldeyrismarkaði.
Arnar segir lífeyrissjóðina geta skuldajafnað hluta af þessum kröfum, eða sem nemur 35 til 40 milljörðum. Fulltrúar lífeyrissjóða funduðu fyrr í þessum mánuði með ráðuherrum, þar á meðal Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra, þar sem farið var yfir stöðu samningana. Arnar segir að hann hafði talað fyrir því að nauðsynlegt væri að flýta því að gera samningana upp eins og kostur væri. „Við viljum gera samningana upp, miðað þær forsendur sem lögfræðiálit sem við höfum látið gera, segir til um. Það er að miða skuli við gengisvístöluna 175.“
Skilanefndirnar hafa litið svo á að aðeins sé hægt að miða við þá gengisvísitölu sem var á markaði þegar hver og einn banki féll. Á þeim þremur dögum sem bankarnir féllu, frá 6. til 9. október, fór gengisvísitalan úr 175 í meira en 200. Hæst var hún þegar Kaupþing var tekinn yfir en stærstu gjaldmiðlaskiptasamningarnir voru við þann banka.
Arnar segir lífeyrissjóðina tilbúna til þess að fara með málið fyrir dómstóla ef ekki verður fallist að gera samningana upp á þeim forsendum sem forsvarsmenn þeirra telja að eigi að miða við.