Jón Kjartansson SU 111 er væntanlegur til Eskifjarðar á morgun með fullfermi af kolmunna, um 2370 tonn. Aflinn fékkst í sex hölum á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi. Á heimasíðu skipsins kemur fram að reiknimeistarar um borð hafi fundið út að trollið hafi verið í sjó í 36 tíma.
Grétar Rögnvarsson, skipstjóri, sagði í gær að hollensk skip og rússnesk hefðu verið á þessum slóðum og í fyrradag hefði norskt skip bæst í hópinn. Grétar sagðist reikna með að fleiri íslensk skip færu á kolmunna á næstunni, t.d. Hákon, Aðalsteinn Jónsson og Vilhelm Þorsteinsson. Samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu hefur 1.300 tonnum af kolmunna verið landað hér það sem af er ári.