Svein Harald Öygard í Seðlabankann

Arnór Sighvatsson hefur verið settur aðstoðarbankastjóri Seðlabankans,
Arnór Sighvatsson hefur verið settur aðstoðarbankastjóri Seðlabankans,

Forsætisráðherra hefur sett Svein Harald Øygard tímabundið í embætti seðlabankastjóra og Arnór Sighvatsson tímabundið í embætti aðstoðarseðlabankastjóra. Þeir hafa þegar hafið störf.

Ný lög um Seðlabankann tóku gildi á miðnætti og samkvæmt þeim eru lagðar niður stöður núverandi bankastjórnar, þar á meðal staða formanns bankastjórnarinnar. Þess í stað verða skipaðir seðlabankastjóri og aðstoðarbankastjóri.  

Svein Harald Øygard, Cand.Oecon., er fæddur árið 1960 og hlaut meistarapróf í hagfræði frá Óslóarháskóla árið 1985, með þjóðhagfræði sem aðalgrein.

Svein Harald var aðstoðarfjármálaráðherra Noregs á árunum frá 1990 -1994. Meðal ábyrgðarsviða hans voru þjóðhagfræði, samþætting stefnu í ríkisfjármálum og peningamálastefnu, löggjöf á fjármálasviði og skattamálefni. Hann leiddi m.a. endurskoðun skattalöggjafar í Noregi árið 1992 og sat í starfshópi norsku ríkisstjórnarinnar um hugsanleg efnahagsleg áhrif inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Svein Harald tók þátt í vinnu norskra stjórnvalda er þau tókust á við banka- og gjaldmiðilskreppuna þar í landi árið 1992. Hann sat í efnahagsráði norska Verkamannaflokksins til ársins 2000.

Á árunum 1983–1990 starfaði Svein Harald í seðlabanka Noregs, fjármálaráðuneytinu og á norska  Stórþinginu. Í fjármálaráðuneytinu hafði hann yfirumsjón með verðbólgugreiningum og tengslum launa og verðlags við aðrar þjóðhagsstærðir.

Svein Harald hefur frá árinu 1995 starfað fyrir ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Company víða í Evrópu, í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, Asíu, Mið-Austurlöndum og Afríku og var framkvæmdastjóri McKinsey & Company í Noregi frá 2005 – 2007. Þar hefur hann einkum unnið að verkefnum og stefnumótun á sviði orku og iðnaðar, skipulagi opinberrar stjórnsýslu og verkefnum tengd fjármálum.

Arnór Sighvatsson, settur aðstoðarseðlabankastjóri, hefur verið aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands frá árinu 2004. Hann var áður staðgengill aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands frá 1995 og deildarstjóri á hagfræðisviði bankans, en hann hóf störf í bankanum árið 1990. Um tveggja ára skeið var Arnór aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington. Þá starfaði hann um hríð við háskólakennslu í Bandaríkjunum og vann um skeið á Hagstofu Íslands.

Arnór lauk doktorsprófi í hagfræði árið 1990 frá Northern Illinois University í Bandaríkjunum, en hafði áður lokið mastersprófi þaðan í sömu grein.

Arnór hefur ritað fjölda greina í fræðileg og fagleg tímarit um efnahagsmál og peningamál, einn eða í samvinnu við aðra. Meginviðfangsefni Arnórs í þessum greinum hafa verið alþjóðleg efnahagsmál, alþjóðaviðskipti, gengismál og peningamál. Þá hefur Arnór sinnt ýmsum nefndar- og stjórnarstörfum fyrir Seðlabanka Íslands.

Reutersfréttastofan sagðist í morgun hafa fengið staðfest  hjá ónafngreindum heimildarmönnum, að Jarle Bergo, fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóri Noregs, yrði í dag settur í embættið. Undir þetta tók norska blaðið Aftenposten á fréttavef sínum.

Svein Harald Øygard.
Svein Harald Øygard.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka