Aflífa varð smáhund í Reykjanesbæ í vikunni, af tegundinni Bichon frise, eftir að hann hafði orðið fyrir árás frá stórum hundi, Stóra Dana, sem einnig var lógað að beiðni eiganda síns. Mikill stærðarmunur er á þessum hundum, eða um 65 kíló. Stóri Dani er að jafnaði um 70 kíló að þyngd og hæð að herðarkambi allt að 80 sentímetrar.
„Auðvitað ríkir gríðarleg sorg á heimilinu, þetta er eins og maður hafi misst barnið sitt,“ segir Jón Benediktsson, eigandi litla hundsins, er hét Öndvegis-Emma. Fjölskyldan hafði átt tíkina í rúm fjögur ár og Emma alið af sér níu hvolpa.
„Við þökkum bara fyrir að við vorum ekki farin að láta unga dóttur okkar labba úti með hundinn,“ segir Jón en tengdaafi hans, áttræður að aldri, var með Emmu á reglubundinni göngu í hverfinu sínu í Reykjanesbæ þegar árásin átti sér stað. Stóri hundurinn var í bandi hinum megin götunnar, ásamt öðrum hundi, er hann hljóp af stað að litlu tíkinni. Fylgdarmaður stóra hundsins reyndi hvað hann gat að halda í hundinn – dróst á eftir honum yfir götuna þar til taumurinn slitnaði.
„Hundurinn réðst beint að Emmu, tók hana upp í kjaftinn og sleit hana lausa frá gamla manninum, sem féll við er hann reyndi að ríghalda í bandið og dróst aðeins eftir götunni, þar til hann varð að sleppa. Honum tókst síðan að losa Emmu úr kjafti stóra hundsins og þá var glefsað í höndina á honum,“ segir Jón, sem með frásögn af málinu vill að það verði öðrum hundaeigenum víti til varnaðar.
Eftir árásina var fyrst farið með litla hundinn á dýraspítala og síðan með gamla manninn á heilsugæslustöð. Eftir aðgerðir og meðferð á dýraspítalanum í Garðabæ kom mikil sýking í sár Emmu, svo ákveðið var að svæfa hana.