Stofnfé Sparisjóðs Vestmannaeyja aukið

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. mbl.lis/GSH

Á fundi stofnfjáreigenda Sparisjóðs Vestmannaeyja í gærkvöldi var samþykkt tillaga sem gerir ráð fyrir allt að 350 milljóna króna aukningu og hafa núverandi stofnfjáreigendur forkaupsrétt að 100 milljónum af þeirri aukningu. 

Á fréttavefnum eyjafréttum.is segir að á fundinum hafi komið fram, að Sparisjóður Vestmannaeyja hafi ekki farið varhluta af hruni fjármálafyrirtækja hérlendis og hlutafé Sparisjóðsins í þeim fyrirtækjum hafi rýrnað verulega síðasta árið. Því sé nauðsynlegt að auka stofnfé Sparisjóðsins.

Þrír lögaðilar innanbæjar hafa sýnt áhuga á að koma myndarlega að þessari stofnfjáraukningu. Það eru Vestmannaeyjabær, Lífeyrissjóðurinn og Vinnslustöðin.

Árið 2007 var samþykkt að auka stofnfé um 1 milljarð og var það strax aukið um 350 milljónir. Var það allt keypt af stofnfjáreigendum sem höfðu forkaupsrétt að aukningunni.

Ólafur Elísson, sparisjóðsstjóri, sagði í morgun að hann væri ánægður með fundinn þó staðan gæti vissulega verið betri. „Við höfum orðið fyrir áföllum eins og aðrir í bankastarfsemi en Sparisjóður Vestmannaeyja er ekki í hættu og allar innistæður tryggðar," sagði Ólafur.

Sparisjóður Vestmannaeyja var stofnaður árið 1942 og hefur hann nú þjónustustöðvar um allt Suðurland, frá Vestmannaeyjum til Selfoss og Hveragerðis og Höfn til Djúpavogs og Breiðdalsvíkur. Sparisjóðurinn annast einnig póstþjónustu á Djúpavogi og í Breiðdalsvík. Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis sameinaðist Sparisjóðnum árið 2007. Eftir samrunan er Sparisjóðurinn rekinn undir þremur bankanúmerum og eru afgreiðslustaðir sex.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert