„Ég hefði ekki tekið þetta verkefni að mér hefði ég ekki talið að framlag mitt skipti máli,“ sagði nýr seðlabankastjóri Svein Harald Øygard á blaðamannafundi í Seðlabankanum í fyrr í dag. Hann sagði starfi sínu hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company lausu klukkan níu í morgun og tók við stjórn bankans, án þess að vita hver launin verða.
„Stjórn bankans á eftir að semja við mig um þau, en ég geri ráð fyrir því að þau verði í samræmi við laun fyrirrennara minna.“ Hann situr sem bráðabirgðabankastjóri þar til ríkisstjórnin hefur ráðið til frambúðar í stöðuna. Líklegast í tvo til fjóra mánuði.
Spurður hvort hann sæktist eftir hann því að verða bankastjóri áfram svaraði hann að samkvæmt lögum mætti erlendur ríkisborgari ekki gegna embættinu til frambúðar. Síðar á fundinum sagði hann fjölskyldu sína ekki flytja til landsins fyrst um sinn en þau myndu ákveða það eftir því hver framvindan yrði.
Øygard sagði íslensku ríkisstjórnina hafa komið að máli við sig og boðið sér starfið. Hann vildi ekki tilgreina nákvæma tímasetningu um hvenær það var.
Fyrsti gestur Øygard í nýju starfi var Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs. Heimsóknin var óvænt og sagði Øygard að hann hefði viljað óska sér til hamingju með nýja starfið. Með í för var norski sendiherrann, Marit F. Tveiten.
Stoltenberg upplýsti að íslenska ríkisstjórnin hefði leitað til þeirrar norsku um ráðleggingar um hæfan mann í bankann og hún mælt með Øygard. Þá sagði Stoltenberg þá Øygard þekkjast. Þeir gengu í sama háskóla og hafa einnig unnið saman, en Svein Harald var aðstoðarfjármálaráðherra Noregs á árunum frá 1990 -1994.
Eins og komið hefur fram hér á mbl.is leiddi hann m.a. endurskoðun skattalöggjafar í Noregi árið 1992 og sat í starfshópi norsku ríkisstjórnarinnar um hugsanleg efnahagsleg áhrif inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Svein Harald tók þátt í vinnu norskra stjórnvalda er þau tókust á við banka- og gjaldmiðilskreppuna þar í landi árið 1992. Hann sat í efnahagsráði norska Verkamannaflokksins til ársins 2000.
Stoltenberg segir hann feikiduglegan. Hann vissi ekki um betri mann í bankastjórastólinn.
Verkamannaflokkurinn norski er systurflokkur Samfylkingarinnar.
Spurður hvort pólitíska reynsla hans vegna starfa fyrir norska verkamannaflokkinn og sem einn aðstoðarmanna fjármálaráðherra Noregs hefðu áhrif á störf hans fyrir bankann svaraði Svein Harald að langt væri síðan hann starfaði við stjórnmálin. Hann hefði unnið sem ráðgjafi fyrir McKinsey í hátt á annan áratug. Hann vonaðist til þess að reynsla hans úr einkalífi og stjórnmálalífinu gerði hann enn hæfari í starfið.
Nýr aðstoðarseðlabankastjóri er Arnór Sighvatsson. „Ég reikna með að þetta verði ögrandi viðfangsefni,“ sagði hann eftir blaðamannafundinn. Arnór er fyrrum aðalhagfræðingur bankans. „Verkefnin eru auðvitað þau sömu og áður. Við erum með fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í heimsókn og þar verður meðal annars rætt ítarlega um verkefnastefnuna, gjaldeyrishöftin og hvernig þetta tvennt hangir saman.“ Þeir Arnór og Öygard hitta fulltrúa sjóðsins síðar í dag.
Öygard sagði mikilvægt að róa öllu árum að því að styrkja krónuna. Arnór segir verðbólguna ekki hjaðna nema að krónan haldist sterk. „Reyndar byrjaði verðbólgan að hjaðna núna í febrúar. Ég hygg að hún muni hjaðna nokkuð hratt næstu mánuðina þannig að að öllum líkindum hefur verðbólgan náð toppi og er byrjuð að hjaðna.“
Arnór segir að auðvitað hafi hann hikað þegar hann hafi verið beðinn að taka starf aðstoðarseðlabankastjóra að sér. „En það er ekki hægt að skorast undan þessari áskorun.“ Spurður hvort hann sækist eftir starfi aðalbankastjóra svaraði hann. „Látum það koma í ljós.“