„Þægilegur túr að öllu leyti“

Jón Kjartansson kom með fullfermi af kolmunna til Eskifjarðar í …
Jón Kjartansson kom með fullfermi af kolmunna til Eskifjarðar í morgun. mbl.is/Helgi Garðarsson

Jón Kjartansson SU 111 kom með fullfermi af kolmunna til Eskifjarðar um hádegi í dag. Aflinn, 2.370 tonn, fékkst á rúmlega tveimur sólarhringum í sex hölum á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi. Siglingin til heimahafnar, rúmar 700 sjómílur eða nærri 1.300 km, tók rúma tvo sólarhringa.

„Þetta var þægilegur túr að öllu leyti. Það er gott að geta sloppið þetta svona brælulítið á þessum árstíma,“ sagði Grétar Rögnvarsson skipstjóri í samtali við mbl.is. Aflinn var veiddur í flottroll og fer allur í bræðslu. Grétar sagði að hölin hafi verið frá þremur og upp í sjö tíma. Stærsta halið gaf 700 tonna. En ætla þeir að halda áfram á kolmunna?

„Já, já, það er ekkert annað að gera. Það er engin loðna,“ sagði Grétar. Hann taldi að aflaverðmætið væri 30-40 milljónir. Jón Kjartansson SU fer væntanlega aftur á veiðar á mánudagskvöld eða þriðjudag. Slæm spá er fyrir kolmunnamiðin næstu daga.  

Miðin eru við mörk írsku lögsögunnar, rúmlega 200 sjómílur vestur af Írlandi. Samtímis Jóni Kjartanssyni á miðunum voru þrjú hollensk skip og tvö norsk. Nú eru Hákon EA og Vilhelm Þorsteinsson EA að koma á kolmunnamiðin.

Bloggsíða áhafnar Jóns Kjartanssonar SU

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert