Skólayfirvöld og starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurlands harma þá alvarlegu atburði er áttu sér stað í skólanum og finna til með þolendum. Þau segja að ofbeldi sé óþolandi og að gerendur í atburðunum hafi verið beittir viðurlögum, að því er fram kemur í yfirlýsingu skólameistara skólans.
Örlygur Karlsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands, sendi í dag frá sér eftirfarandi bréf vegna þeirra alvarlegu atburða
sem áttu sér stað í skólanum nýverið.
„Skólayfirvöld og starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurlands harma þá alvarlegu atburði er áttu sér stað í skólanum og finna til með þolendum.
Í skólum á að ríkja vinnufriður. Ofbeldi af öllu tagi er óþolandi. Þeir sem sem voru gerendur í þessum alvarlegu atburðum hafa verið beittir viðurlögum. Hegðun sem þessi verður ekki liðin. Gripið hefur verið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að sambærilegir atburðir geti átt sér stað. Skólinn mun bæta viðbragðsáætlanir sínar þannig að hægt sé að bregðast á markvissari hátt við óvæntum atburðum.
Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur frá upphafi tekið við öllum nemendum og verið með fjölbreytt námsframboð og mikla stoðþjónustu. Má þar nefna þjónustu námsráðgjafa, sálfræðings og læknis, auk þess sem forvarnarteymi er starfandi við skólann. Stofnað hefur verið foreldrafélag. Íþróttaakademíur eru nýlegur liður í skólastarfinu, þar er verið að tengja saman forvarnarstarf, nám og afreksíþróttir.
Hópur kennara og nemenda hefur frá upphafi vorannar 2009, í áfanganum FOV171 (Forvarnir 171), unnið að aðgerðaáætlun gegn einelti og gegn neikvæðum hópamyndunum. Tilgangur verkefnisins er einnig að stuðla að aukinni meðvitund nemenda um birtingarmyndir eineltis.
Ákveðið hefur verið að Fjölbrautaskólinn verði þátttakandi í Olweusar- verkefninu og vinni náið með Sveitarfélaginu Árborg, m.a. á sameiginlegum vettvangi á sviði forvarna. Vonast er eftir að skólinn fái stuðning menntamálaráðuneytisins í því sambandi.
Að vinna gegn og útrýma einelti og ofbeldi er stöðugt verkefni allra sem að skólamálum koma, nemenda, foreldra, starfsmanna skóla og yfirvalda í menntamálum. Fjölbrautaskóli Suðurlands mun, hér eftir sem hingað til, vinna að bættu skólastarfi og efla aðgerðir gegn neikvæðri hópamyndunum, einelti og ofbeldi.
Að lokum skal bent á að reglulega hafa verið gerðar kannanir á líðan nemenda í FSu og kemur skólinn ekki verr út en aðrir sambærilegir skólar, jafnvel betur. Nemendum líður almennt vel í skólanum.“