Gylfi flytur fyrirlestra í Bandaríkjunum

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hefur í vikunni flutt fyrirlestra um stöðu mála á Íslandi í Harvardháskóla og Yale háskóla í Bandaríkjunum. Haft er eftir Gylfa í blaðinu Connecticut Post, að nauðsynlegt sé að fá alþjóðlega sýn á aðgerðir stjórnvalda á Íslandi. 

Blaðið segir að Gylfi hafi verið búinn að skipuleggja Bandaríkjaferðina áður en hann varð viðskiptaráðherra og notað tækifærið til að halda fyrirlestra en hann lauk doktorsprófi frá Yale árið 1997. 

Í viðtali við blaðið útskýrir Gylfi þá atburðarás sem leiddi til svonefndar búsáhaldabyltingar og stjórnarskipta á Íslandi. Hann segir, að mikil reiði og tilfinningar hafi brotist út og miðað við íslenskar hefðir hafi mótmælaaðgerðirnar verið óvenjulega harðvítugar. Fólk hafi hins vegar róast við stjórnarskiptin.

Gylfi segir, að ríkisstjórnin sé að grípa til aðgerða til að leggja heimilum í fjárhagserfiðleikum lið og segir að fjármagn sé til staðar. Þá segir hann Íslendinga samheldna og einsleita þjóða sem geri þeim auðveldara en ella að takast á við vandamálin. 

Blaðið hefur eftir Gylfa, að næstu tvö ár eða svo verði erfið en eftir 5-10 ár ætti efnahagslífið að hafa rétt úr kútnum. Íslendingar ráði nú yfir þeim tækjum, sem þurfi til að leysa vandamálin en nú sé mikið undir því komið hvernig öðrum þjóðum takist að fást við fjármálakreppuna.

„Kannski getur reynsla Íslands hjálpað öðrum þjóðum," segir Gylfi.

Frétt Connecticut Post

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert