Ekki gert í neinum leiðindum

Þórshöfn á Langanesi.
Þórshöfn á Langanesi. www.mats.is

Björn Ingimarsson, sveitastjóri Langanesbyggðar, lætur af starfi á morgun, 1. mars. Hann segir starfslokin tengjast ákvörðun sinni um að gefa kost á sér í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Björn sagði að meirihluti sveitarstjórnarinnar hafi ekki verið sáttur við áform hans um að fara í prófkjör vegna Alþingiskosninga. „Eftir að hafa farið yfir þau mál var ljóst að við höfðum ekki alveg samhljóma skoðanir í þessum efnum. Þá var bara eðlilegt að skildu leiðir,“ sagði Björn. Hann hefur gegnt sveitarstjórastarfinu frá því í nóvember 2001. Ekki er búið að ráða nýjan sveitarstjóra.

Björn sagði að starfslokin væru ekki gerð í neinum leiðindum. „Ef menn ná ekki saman þá er skynsamlegast að þeir hætti að starfa saman,“ sagði Björn. „Ég ber engan kala til þessara manna og reikna með að vera þeim innan handar. Það er ekki eins og ég sé að hlaupa í burtu. Ég verð hér áfram. En á næstunni mun ég einhenda mér í prófkjörið og vonandi í framboðsmál í framhaldi af því.“

Í fréttatilkynningu frá Siggeir Stefánssyni, oddvita í Langanesbyggð, segir að vegna áforma Björns um „að snúa til starfa á nýjum vettvangi“ hafi orðið að samkomulagi með honum og hreppsnefnd Langanesbyggðar að hann láti af störfum fyrir sveitarfélagið frá og með 1. mars 2009.

„Birni er þökkuð vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins og er honum óskað velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi,“ segir í fréttatilkynningu oddvitans.

Björn Ingimarsson
Björn Ingimarsson mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert