Japanska ríkisstjórnin hefur leyft innflutning á norsku hrefnukjöti í fyrsta skipti frá árinu 1988. Þetta hefur japanska Kyodo fréttastofan eftir embættismönnum í báðum löndum. Um er að ræða 5,6 tonn af kjöti, sem flutt voru til Japans á síðasta ári ásamt langreyðakjöti frá Íslandi.
Innflutningsleyfi fékkst á síðasta árinu fyrir íslenska kjötinu og þá voru liðin 17 ár frá því hvalkjöt var var flutt inn til Japans frá Íslandi.
Ísland og Noregur eru einu ríkin í heiminum sem stunda hvalveiðar í atvinnuskyni. Japanar stunda umfangsmiklar hrefnuveiðar í Suðurhöfum en þær eru í samræmi við vísindaáætlun þarlendra stjórnvalda.
Norska hrefnukjötið kom Nagoya í júní á síðasta ári en japanska sjávarútvegsstofnunin óskaði ekki eftir innflutningsleyfi fyrr en í janúar. Kyodo hefur eftir embættismanni, að sá hluti kjötsins, sem átti að nota hrátt í sushi hafi ekki staðist prófanir en gert sé ráð fyrir að aðrir hlutar kjötsins fari í gegnum tollskoðun innan skamms.
Þegar embættismaður var spurður hvers vegna það hefði tekið svona langan tíma að að flytja kjötið inn í landið eftir að það kom þangað svaraði hann, að málið væri viðkvæmt vegna þess að um væri að ræða hvalkjöt. Skriffinnskan hefði verið tímafrek vegna þess að langt væri síðan slíkt kjöt hefði verið flutt inn frá Noregi.
Kyodo segir, að japönsk stjórnvöld virðist einnig hafa viljað fara fram af varkárni enda ljóst að sú ákvörðun að leyfa innflutninginn muni sæta harðri gagnrýni víða. Norðmenn eru hins vegar ánægðir.
„Við erum afar þakklát og ánægð með að nú sé hægt að eiga viðskipti með hvalafurðir," segir Astrid Holtan, aðstoðarskrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu norska sjávarútvegsráðuneytisins.
„Vegna þess að þetta er sérstök framleiðsla hefur farið fram mikil alþjóðleg umræða og þetta er ekki auðvelt... þetta er ekki eins og venjuleg fiskviðskipti."