„Við Íslendingar höfum náð okkur á strik eftir náttúruhamfarir. Við höfum burði til að ná okkur eftir efnahagslegar hamfarir,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands á háskólahátíð í dag. Hún lagði áherslu á vísindastarf og nýsköpun sem úrræði til að komast út úr þeim vanda sem nú steðjar að. Brautskráðir voru 367 kandídatar.
Kristín rektor kvaðst vilja auka hagnýtingu vísindarannsókna við skólann og uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja. Nefndi hún dæmi um nýleg og eldri sprotafyrirtæki sem sprottið hafa upp í tengslum við Háskóla Íslands. Hún sagði einnig að Háskólinn væri meginmiðstöð rannsókna og umræðu í landinu um öll helstu mál samtímans.
„Þetta endurspeglast m.a. í því að starfsfólk Háskólans hefur verið leitt til ábyrgðarstarfa við uppbyggingu samfélagsins og eru í hópi helstu sérfræðinga við greiningu þeirra samfélagsbreytinga sem nú eiga sér stað,“ sagði Kristín.
Háskóli Íslands hefur nýlega gert samstarfssamninga við tvo af fimm mest metnu háskólum í heiminum í dag - Harvard háskóla og California Institute of Technology (Caltech). „Þetta tel ég vera augljóst dæmi um nýsköpun því það leiðir til nýrra hugmynda og verðmætasköpunar.
Vísindamenn úr ýmsum greinum við Háskóla Íslands hafa um árabil verið í samstarfi við kennara í þessum skólum, en í krafti þessara nýju samninga koma kennarar frá Harvard hingað til að kenna stúdentum í lýðheilsuvísindum og leiðbeina í meistara- og doktorsverkefnum.
Jafnframt verða ungir vísindamenn ráðnir sameiginlega af Háskóla Íslands og Harvard. Nemendur héðan fara í annað sinn nú í sumar til CalTech til að vinna að rannsóknaverkefnum undir leiðsögn kennara þar í lífefnafræði, rafmagns- og tölvuverkfræði og eðlisfræði. Nemendur frá CalTech í jarðvísindum, sameindalíffræði og eðlisfræði koma á móti til Háskóla Íslands,“ sagði Kristín í ræðu sinni.
Háskóli Íslands brautskráði í dag 367 kandídata frá flestum deildum skólans. Meðal annars brautskráðust tvær heyrnarlausar konur, önnur úr hjúkrunarfræðideild hin úr félags- og mannvísindadeild.
Heiðdís Dögg Eiríksdóttir útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur og mun vera fyrsta heyrnarlausa konan til að brautskrást sem hjúkrunarfræðingur í Evrópu. Steinunn Lovísa Þorvaldsdóttir brautskráist með BA-próf í þjóðfræði með mannfræði sem aukagrein.