2,5 milljónir fyrir áburð

Haraldur Benediktsson.
Haraldur Benediktsson.

Útgjöld meðalstórs kúabús til áburðarkaupa var um 960 þúsund krónur árið 2007. Í vor stefnir í að reikningurinn verði 2,5 milljónir króna, að sögn Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands.  Útgjaldaaukning bænda vegna áburðar væri tæpir 2 milljarðar króna á tímabilinu.

„Áburðarverðshækkun á þessu vori er um 50% frá fyrra ári. Í fyrra var hækkunin tæp 80% á milli ára. Þá mátu Bændasamtökin áburðarverðshækkun þýða um 1200 milljóna króna útgjaldaaukningu fyrir bændur. Nú telja Bændasamtökin hækkunina vera rúmlega 700 milljónir króna. Útgjaldaaukning bænda sem stunda grænmetisræktun, mjólkur- og kjötframleiðslu er því tæpir tveir milljarðar króna á undanförnum tveimur árum," sagði Haraldur þegar hann setti búnaðarþing í dag.

Hann sagði  afar brýnt væri að taka á ýmsum vanda sem steðjaði að landbúnaði. Rekstrarumhverfi bænda væri afar erfitt og nauðsynlegt væri að bregðast þar skjótt við. Þá sagði Haraldur að eyða þyrfti sem fyrst þeirri miklu óvissu sem ríkti um búvörusamningana.

Haraldur benti á að um 10.000 störf tengdust landbúnaðinum og til að mynda væri athyglisvert að úttekt hefði leitt í að fleiri störf á höfuðborgarsvæðinu tengdust landbúnaðinum en á Vesturlandi.

Haraldur sagði ennfremur að hugmyndir menntamálaráðherra um hugsanlega sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands væru mikið áhyggjuefni og vekti furðu. Það væri hagsmunamál að halda Landbúnaðarháskólanum sér sjálfstæðri stofnun og því þyrfti að fara vel yfir þessi mál en varast að rasa um ráð fram.

Evrópusambandsaðild bar einnig á góma í ræðu formannsins. Sagði hann, að bændur leggist gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu og búnaðarþing þurfi að senda frá sér skýr skilaboð um það. Sagði Haraldur, að íslenskir bændur telji sig geta átt gott samstarf við ESB miðað við þær leikreglur sem þegar hafa verið settar en aðild að landbúnaðarstefnu sambandsins sé óhagkvæm.

Þá minnti Haraldur á hið umdeilda matvælafrumvarp og að Bændasamtökin hefðu sent inn umsögn til Alþingis um málið. Ný umsögn yrði send á næstunni því mikilvægt væri fyrir landbúnaðarráðuneytið að vinna með bændum að frumvarpinu. Ekki hefði alltaf verið tekið vel í það af hálfu hins opinbera að samtökin kæmu með álitsgerðir af þessu tagi en hann vonaðist til þess að nú yrði samvinna fyrir hendi.

Ræða Haraldar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka