Maður var tekinn í nótt við tilraun til að brjótast inn á Litla-Hraun. Að sögn lögreglunnar á Selfossi eru þekktar nokkrar tilraunir til að brjótast þaðan út, en mun sjaldgæfara er að menn reyni að brjótast inn í fangelsið. Hann gistir nú fangageymslur lögreglunnar.
Fangaverðir á Litla-Hrauni sáu í eftirlitsmyndavélum hvar maðurinn var með vírklippur að munda sig við að klippa gat á girðinguna sem umlykur fangelsið. Lögreglan var kölluð til og handtók manninn. Hann var þá búinn að vinna nokkuð tjón á girðingunni.
Að sögn lögreglu var maðurinn talsvert ölvaður og ekki með það alveg á hreinu hvað honum gekk til með tiltækinu. Hann sefur nú úr sér á Selfossi og verður yfirheyrður þegar af honum rennur.