Lögreglan í Borgarfirði og Dölum handtók aðfaranótt laugardags sex manns, fimm karlmenn og eina konu á aldrinum 15 til 50 ára og lagði hald á rúmlega 30 kannabisplöntur í sumarbústað í Borgarfirði.
Fólkið var flutt á lögreglustöðina í Borgarnesi þar sem yfirheyrslur fóru fram. Að sögn lögreglu voru fíkniefnin, sem voru í þurrkunarferli í bústaðnum, íslensk framleiðsla og kvaðst fólkið hafa tekið að sér að sjá um að þurrka plönturnar fyrir annan aðila en það hefði ekki staðið að ræktuninni sjálft.
Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi naut hún aðstoðar frá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn málsins og einnig kom lögreglan á Akranesi til aðstoðar við handtöku fólksins.
Fólkinu var sleppt úr haldi að yfirheyrslum loknum.