3 milljarðar sagðir afskrifaðir

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Ómar Óskarsson

Um þrír milljarðar af tæplega fimm milljarða skuldum Árvakurs voru afskrifaðir við kaup Þórsmerkur á félaginu, samkvæmt því er fram kom í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, gerði afskriftir á skuldum Árvakurs að umtalsefni á Alþingi í dag og spurði Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra út í þær. „Má ætla að það fordæmi sem gefið er með sölu útgáfu Morgunblaðsins muni íslenska þjóðin taka á sig nokkra milljarða afskriftir af fjölmiðlum?“sagði Guðjón Arnar og vitnaði til þess að aðrir fjölmiðlar stæðu einnig illa, og þyrftu jafnvel á afskriftum að halda.

Steingrímur J. svaraði því til að söluferlið á Árvakri hafi alfarið verið í höndunum á Íslandsbanka. Félagið hefði verið selt hæstbjóðenda, eftir að áform fyrri stjórnar um hlutafjáraukningu gengu ekki eftir. Steingrímur sagði síðan að niðurstaðan hefði að lokum verið sú að stór vinnustaður, Morgunblaðið, hefði haldið velli.

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla sem rekur meðal annars Stöð 2, Fréttablaðið og Vísi, segir afskriftir skulda fyrirtækja í raun hluta af því vandamáli sem íslensk stjórnvöld glími við nú. Bankarnir sem reyni að leysa úr vandamálum séu á ábyrgð ríkisins, og því geti verið vandmeðfarið að afskrifa skuldir einstakra fyrirtækja sem séu komin á endastöð í rekstri án þess að samkeppnisstaða fyrirtækja á markaði versni. Hins vegar sé einnig sjónarmið, að bankarnir þurfi að reyna eftir fremsta megni að fá aðeins mikið og hægt er upp í skuldir, ef þannig fer að bankinn setja félög í söluferli. „Almennt þarf að passa upp á að samkeppnisskilyrði versni ekki við sértækar aðgerðir að hálfu ríkisins. Það er því sem næst ómögulegt að gera það ekki, þegar ríkið er farið að stýra bankastarfsemi í því árferði sem nú ríkir,“ sagði Ari í samtali við mbl.is í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert