Hvar á að taka þessa peninga?

Jóhanna Sigurðarsdóttir.
Jóhanna Sigurðarsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi að samkvæmt lauslegum mati mætti ætla að hugmyndir framsóknarmanna um 20% flatan niðurskurð skulda myndu kosta 1.200 milljarða króna. "Hvar á að taka þessa peninga?" sagði hún í ræðu sem var svar við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar þingmanns Framsóknarflokksins. Birkir Jón lýsti miklum vonbrigðum með áhugaleysi ráðherrans og sagði óþol í samfélaginu þar sem ekki hefði verið ráðist í raunverulegar aðgerðir til bjargar heimilunum.

Birkir Jón sagði að sérfræðingar sem framsóknarflokkurinn hefði rætt við hefðu sagt að raunveruleg hætta væri á kerfishruni hér á landi ef ekki væri gripið til aðgerða til bjargar heimilum og fyrirtækjum fljótt. Ekki væri hægt að bíða fram á haust. Þá spurði hann hvort forsætisráðherra gerði sér ekki grein fyrir að búið væri að afskrifa skuldir sem voru færðar úr gömlu bönkunum í þá nýju. Þetta var raunar ofsagt hjá þingmanninum því ekki er búið að ganga frá þessari yfirfærslu eða ákveða endanlega hvert afskriftarhlutfallið verður.

Jóhanna sagðist fagna ýmislegu sem hefði komið fram í tillögum Framsóknarflokksins en hún hafði verulegar efasemdir um 20% flatan niðurskurð. Engum væri heldur greiði gerður með því að leggja fram óraunhæfar tillögur. Hún benti á að með 20% flötum niðurskurði væri verið að færa niður skuldir, með ærnum tilkostnaði, hvort sem viðkomandi þyrfti á því að halda eða ekki. Það væri ekki verjandi að lækka skuldir hálaunafólks sem hugsanlega skuldaði eitthvað í sínum húsum um 20%. Frekar ætti að reyna að gera betur við þá sem raunverulega þyrftu á því að halda. Upphæðirnar í þessu máli væru gríðarlegar en "einhver þarf að borga brúsann," sagði hún.

Birkir Jón lýsti miklum vonbrigðum með þetta svar forsætisráðherrans og sagði það skjóta skökku við að á sama tíma og verið væri að afskrifa milljarða, t.d. vegna kaupa nýrra eigenda á Morgunblaðinu, ætti ekki að ráðast í raunverulegar aðgerðir til bjargar heimilunum. Jóhanna svaraði því til að ýmislegt ætti að gera til að styðja við þá sem væru í verstri stöðu, t.d. lægi fyrir frumvarp um greiðsluaðlögun. Þau væri ljóst að fara þyrfti út í verulegar afskriftir á skuldum, burtséð frá tillögum framsóknarmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka