Leita loðnu við Snæfellsnes

Áhöfnin á Faxa RE er nú við loðnuleit á svæðinu vestur og norðvestur af Snæfellsnesi. Loðnuleitin fer fram í samvinnu við Hafrannsóknastofnunina er Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur um borð í skipinu.

Samkvæmt upplýsingum Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipa HB Granda, var ákveðið að senda Faxa RE til loðnuleitar eftir að áhöfnin á Ingunni AK varð vör við loðnutorfu norðvestur af Öndverðarnesi. Skipverjar á Ingunni AK leituðu loðnu fyrir norðan- og vestanverðu landinu eftir löndun á Vopnafirði fyrir helgina.

Um borð í Faxa RE er fjarskiptabúnaður sem gerir kleift að senda upplýsingar frá fiskleitartækjum skipsins beint til Hafrannsóknastofnunar. Faxi RE var kominn á leitarsvæðið nú í morgun en nú um hádegisbilið hafði loðnuleitin engan árangur borið, að því er fram kemur á vef HB Granda.

Loðnuvinnslu á Vopnafirði úr rannsóknarkvóta HB Granda lauk um helgina. Fór aflinn til hrognatöku, frystingar og bræðslu. lokið Alls var unnið úr um 3.000 tonnum af loðnu og var hrognanýtingin rúmlega 15%.

Stefnt er að því að Ingunn AK og Lundey NS fari til gulldepluveiða í kvöld eða á morgun en allt ræðst það af því hvort loðnuleit Faxa RE ber árangur eða ekki. Ef ekki kemur svokölluð vestanganga loðnu þá þykir sýnt að ekki verður um frekari loðnuveiðar að ræða á þessari vertíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert