Ummælin sem höfð voru eftir Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, um að Þjóðverjar yrðu að skilja að Íslendingar myndu ekki bæta tapaðar sparifjárinnstæður þýskra viðskiptavina Kaupthing Edge voru afar óheppileg fyrir íslenskt ferðaþjónustufólk í Þýskalandi, að mati Arthúrs Björgvins Bollasonar, upplýsinga- og kynningarfulltrúa Icelandair í Mið-Evrópu. Hann hélt nýverið erindi um stöðuna á Íslandi í kauphöllinni í Frankfurt og segir viðstadda hafa sýnt þróuninni gífurlegan áhuga.
Arthúr hefur í áraraðir fylgst náið með umfjöllun þýskra fjölmiðla um Ísland og kveðst ekki fyrr hafa séð þann harða tón sem einkenndi þýskan fréttaflutning um Ísland vegna þeirrar ákvörðunar Einars K. Guðfinnssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, að heimila takmarkaðar veiðar á hrefnu og langreyðum til ársins 2013.
Mikill hvellur í fjölmiðlum
„Það var auðvitað mikill, mikill hvellur í fjölmiðlum út af þessu viðtali. Það vildi svo til að ég var heima þennan dag og var með útvarpið í gangi. Mér krossbrá við þessi tíðindi, þetta kom sem aðalfrétt á öllum útvarpsstöðvum. Hún hljómaði eins og að Íslendingar ætluðu að láta menn sem ættu fé inni hjá Kaupthing Edge bara gossa og að þeir myndu aldrei fá neitt bætt. Síðan þegar leið á daginn fóru að koma leiðréttingar á þessu.
Menn voru að bera þetta smám saman til baka, en auðvitað var þetta vægast sagt óheppilegur misskilningur. Það sem var kannski enn verra var það sem gerðist í kjölfarið, þegar að andrúmsloftið var orðið pínulítið rafmagnað, þegar fjölmiðlarnir fóru allt í einu fram með það að samþykkt hefði verið á Íslandi að taka upp hvalveiðar.
Ég held því fram algjörlega blákalt að það hafi verið í fyrsta sinn, og ég fylgist mjög náið með þýskum fjölmiðlum, á minni tíð í Þýskalandi, og hún er orðin löng, þar sem ég sá votta fyrir vissri hörku í fréttaflutningnum. Það var viss reiði sem leyndi sér ekki í garð Íslendinga. Maður heyrði líka tóninn þegar maður var í sambandi við fólk sem hefur alltaf sýnt okkur mikla velvild í þessu krepputali, að menn sögðu bara: „Tja, eruð þið ekki búnir að vera nógu erfiðir við heiminn þó að þið byrjið ekki á þessu líka?" Það var svolítið tónninn.“
Sniðgengur íslenskar vörur
Arthúr Björgvin segir að minnsta kosti eina þýska verslunarkeðju hafa hætt að selja íslenskar vörur vegna veiðanna. Hann óttast að fleiri fyrirtæki fylgi í kjölfarið, enda hafi hann upplýsingar um að hvers kyns sala og markaðssetning á vörum frá Íslandi sé orðin erfiðari eftir að veiðarnar spurðust út.
Við það bætist að um 200 umhverfisverndarsamtök hóti því í bréfum til Íslendinga í Þýskalandi að beita sér fyrir herferð gegn sölu á íslenskum vörum. Sú atburðarás geti því endurtekið sig frá 9. áratugnum þegar þýskir umhverfisverndarsinnar fóru í herferð gegn íslenskum varningi.
„Við erum náttúrlega búin að fá fullt af hótunarbréfum frá Þýskalandi. Þar er því hótað að 200 umhverfisverndarsamtök muni stuðla að því að loka fyrir kaup á íslenskum varningi í búðum og fá fólk ofan af ferðum til Íslands. Þessu rignir yfir ferðaþjónustufólk."
Það er þó mjög erfitt að sjá hver er á bak við þetta. Við höfum ekki alveg fundið þann aðila sem að stendur fyrir þessum sendingum. Þess vegna vitum við ekki þegar talað er um 200 náttúru- og umhverfisverndarsamtök hversu mikil alvara er í þessu," segir Arthúr Björgvin.
Sagan gæti endurtekið sig
Hann rifjar upp svo sterk viðbrögð Þjóðverja við hvalveiðum Íslendinga á 9. áratugnum þegar heilu verslanakeðjurnar sniðgengu íslenskar vörur.
„Ég veit til þess að menn hafa lent í erfiðleikum með sölu á íslenskum vörum núna í vissum verslanakeðjum hér. Þar eru áhrif þessara yfirlýsinga farin að koma fram. Það er að minnsta kosti ein verslanakeðja hér sem hefur hreinlega lýst því yfir að hún vilji sem stendur ekka kaupa við þessar aðstæður íslenskar vörur. Það er mjög alvarlegt.
Mér finnst sem fólk geri sér ekki grein fyrir þessu heima. Mér finnst algjörlega fáránlegt þegar við eigum í þessum vanda að bæta þessu ofan á hann. Menn átta sig ekki á andrúmsloftinu í Evrópu í þessum efnum. Þegar ímyndin er svolítið löskuð og við förum þá að steyta hnefann framan í heiminn með þessu þá náttúrlega eru menn ekkert sérstaklega vinveittir.
Ég óttast það ef þessu verður haldið til streitu núna, af því að athyglin er margföld á okkur miðað við það sem hún var þá."
Uppákoman hjálpaði ekki
Arthúr Björgvin, sem ritstýrir vefsíðu þýska ferðamálaráðsins á íslensku, segir uppákomuna með forsetann og þá reiði sem hvalveiðarnar hafi vakið ekki hjálpa til við rekstur síðunnar.
„Ég ímynda mér að það gæti orðið erfitt fyrir Þjóðverja að réttlæta það að þeir séu að hygla Íslandi með þessum hætti ef svo mótmæli gegn hvalveiðum yrðu mjög öflug." Reksturinn sé í raun „hápólitískur" og rifjar Arthúr Björgvin í því samhengi upp að Goethe-miðstöðinni og síðar Goethe Zentrum hafi verið lokað, en báðar voru sem kunnugt er starfræktar í Reykjavík.
„Það var því enginn gluggi til Þýskalands. Það er ekki hægt að fara í neina stofnun til að fá upplýsingar um ferðalög til Þýskalands. Sendiráðið hefur það ekki á sinni könnu að standa í ferðaþjónustu. Þarna var ákveðið að opna nýjan glugga til Þýskalands þar sem hægt er að nálgast allar grunnupplýsingar um landið á íslensku."
Vináttuvottur Þjóðverja
Vefsíðan tyskalandsferdir.travel hafi verið sett upp síðastliðið vor eftir að gistinætur Íslendinga í Þýskalandi fóru yfir 100.000 um og eftir heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu árið 2006.
„Velvild þeirra hefur komið fram í því að í staðinn fyrir að skera niður í rekstri síðunnar eða jafnvel loka henni hafa þeir haldið alveg dampinum þrátt fyrir að ferðalög okkar til Þýskalands og annarra landa hafi minnkað verulega. Það finnst mér út af fyrir sig mjög skemmtilegur vináttuvottur af þeirra hálfu."
Hann segir ummæli forsetans og hvalveiðimálið hafa gengið á velvilja Þjóðverja.
„Við eigum voða lítið til góða að vera með einhverjar svona sérviskulega uppreisn gegn hvalveiðibanninu. Það hefur auðvitað gengið á velvilja Þjóðverja. Það væri út í hött að segja annað."
Mikið spurt um Ísland
Aðspurður hvort ímynd Íslands í Þýskalandi hafi borið skaða af fjármálahruninu og umræðunnar um Kaupthing Edge segir Arthúr Björgvin þá Þjóðverja sem hann hafi rætt við almennt hafa sýnt stöðu Íslendinga mikið umburðarlyndi. Engu að síður hafi fallið á blettur á ímyndina í hinum þýskumælandi heimi.
Komið hafi fram í þýskum fjölmiðlum að áhrif fjármálakreppunnar í Bandaríkjunum hafi bitnað hart á Íslendingum, sem búi við lítið hagkerfi og þoli því illa ágjafir af þessu tagi. Íslensk stjórnvöld og fjármálaeftirlitið hafi verið gagnrýnd í fréttaflutningnum.
Umburðarlyndið hafi hins vegar verið öllu minna í máli Kaupthing Edge.
Arthúr Björgvin hélt nýverið kvöldfyrirlestur í þýsku kauphöllinni í Frankfurt. Til hafi staðið að hann talaði í 20 mínútur og sæti svo fyrir svörum í hálftíma en annað hafi komið á daginn. Fyrirlestur og fyrirspurnir hafi tekið alls tvo og hálfan klukkutíma.
„Þeir ætluðu aldrei að sleppa manni í burtu. Þetta var fólk sem var úr atvinnu- og viðskiptalífinu. Það var alveg ljóst það kvöld að fólk hafði fyrst og fremst samúð með íslensku þjóðinni að hafa lent í þessum hremmingum. Auðvitað gerði þetta fólk sér ljóst að þarna hefðu einhverjir fjármálaspekúlantar farið illa að ráði sínu. Það er eitt sem verður að hafa í huga með Þjóðverja. Þeir kunna að skilja milli sauðanna og hafranna í þessum málum. Þeir eru síðasta þjóðin til að fara fordæma heila þjóð vegna mistaka sem ákveðinn, lítill hópur hefur gert."