Umferðaröryggi og afköst aukast

Suðurlandsvegur í Svínahrauni
Suðurlandsvegur í Svínahrauni

Vegagerðin hefur tilkynnt til athugunar Skipulagsstofnunar frummatsskýrslu um Suðurlandsveg frá Hólmsá ofan Reykjavíkur að Hveragerði. Um er að ræða 31 kílómetra vegarkafla og er fjallað um þrjár mismunandi útfærslur í skýrslunni. Í skýrslunni segir að jákvæð áhrif á samgöngur, útivist og vatnsvernd vegi þyngra en þau neikvæðu áhrif sem verða á gróður, jarðfræði og náttúruminjar. Umhverfisáhrif 2+2 vegar með mislægum vegamótum verða meiri en umhverfisáhrif 2+1 vegar og 2+2 vegar með þröngu sniði.

Vegagerðin áformar að auka umferðaröryggi og afkastagetu Suðurlandsvegar frá Hólmsá ofan Reykjavíkur og austur fyrir vegamót við Hveragerði. Þessu hyggst Vegagerðin ná með því að aðskilja akstursstefnur og fjölga akreinum á leiðinni sem er um 31 kílómetri.

Í frummatsskýrslunni er fjallað um þrjár mismunandi útfærslur til að ná þessu markmiði þ.e. 2+2 veg með mislægum vegamótum á 7 stöðum, 2+1 veg með vegamótum í plani, en þá er gert ráð fyrir að akreinum sé síðar, þegar umferðarmagn kallar eftir því, fjölgað í tvær í hvora átt, þá hugsanlega með þröngu sniði.

Vegurinn liggur um sveitarfélögin Kópavog, Mosfellsbæ, Seltjarnarnes, Ölfus og Hveragerði.

Helstu áhrif framkvæmdanna felast í vegfyllingum sem taka yfir mismikið land. Heildarvegbreidd er frá 15,5 metrum (2+1 vegur) til 34 metra (2+2 vegur) og mislæg vegamót taka yfir um einn hektara á hverjum stað.

Gert er ráð fyrir að í gerð 2+2 vegar með mislægum vegamótum þurfi um 1,9 milljónir m³ af efni. Gerð 2+1 vegar er mun umfangsminna verk og áætluð efnisþörf er 410 þúsund m³ eða rúm 20% af efnisþörf 2+2 vegar og í 2+2 veg í þröngu sniði þarf um 1.090 þúsund m³.

Náttúruminjar, jarðmyndanir og gróður

Heildarskerðing á mosavöxnum nútímahraunum við gerð 2+1 vegar verður innan við 3 hektarar og lendir að mestu á gömlum skeringasvæðum. 2+2 vegur í þröngu sniði tekur yfir nokkru meira land en 2+1 vegurinn. Mikið af breikkun vegna 2+2 vegar og mislægra vegamóta verður einnig innan gamalla skeringa. Skerðing á óröskuðu Svínahrauninu verður þó allt að 9 hektarar.

Fornleifar

Samtals voru 47 fornleifar skráðar og staðsettar á áhrifasvæði Suðurlandsvegar, margar tengdar samgöngum fyrri tíma. Fornleifar verða merktar til að minnka líkur á að þær verði fyrir skemmdum á meðan á framkvæmdum stendur.

Vatnsvernd

Suðurlandsvegur liggur um vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins, Sveitarfélagsins Ölfuss og Hveragerðisbæjar. Umferð um Suðurlandsveg er nú um 6.700 – 10.000 bílar að jafnaði á dag og um 9% umferðarinnar eru þungaflutningar. Um Suðurlandsveg fara að jafnaði 5 til 10 olíuflutningabílar á dag. Þar á meðal eru stærstu olíubílar landsins sem geta tekið allt að 32 tonn í ferð og eru flutningarnir um Suðurlandsveg óheftir. Markmið framkvæmdanna er að aðskilja akbrautir og breyta vegfláum og öryggissvæðum og draga úr líkum á bílveltum og árekstrum og þar með hættu á mengun vatnsbólanna.

Hljóðvist

Tvöföldun vegarins í 2+2 veg mun hafa áhrif til hækkunar á hljóðstigi í þá átt sem Suðurlandsvegurinn verður breikkaður og umhverfis vegamót. Með mótvægisaðgerðum verður hljóðstigið undir mörkum hávaðareglugerðar.

Sjónræn áhrif

Tvöföldun Suðurlandsvegar í 2+2 veg með mislægum vegamótum mun auka sýnileika hans verulega þar sem breikkun vegsvæðisins nemur frá 15 – 20 metrum. Við gerð 2+1 vegar og 2+2 vegar í þröngu sniði verða breytingar frá núverandi vegi mun minni og umfang allra vegamóta þannig að um óverulega breytingu verður að ræða frá því sem nú er.

Útivist

Sú bylting verður fyrir útivist að lagður verður göngu- og hjólreiðstígur frá höfuðborgarsvæðinu og austur fyrir fjall sem opna mun nýjan möguleika og gera hjólreiðar öruggari ferðamáta á leiðinni. Tilkoma fimm reiðganga undir Suðurlandsveg tengir saman reiðleiðir beggja vegna vegarins og gerir hestaferðir mun öruggari.

Umferðaröryggi

Breikkun Suðurlandsvegar mun hafa verulega jákvæð áhrif á umferðaröryggi og afköst vegarins í heild. Ætla má að óhöppum fækki nokkuð en mestu munar um að alvarleiki óhappanna verður mun minni þar munar litlu á hvort 2+2 vegur, 2+1 vegur eða 2+2 vegur með þröngu sniði verður fyrir valinu. Ávinningur hefðbundins 2+2 vegar er þó örlítið meiri en hinna veggerðanna.

Niðurstaða mats

Það er mat framkvæmdaraðila að jákvæð áhrif á samgöngur, útivist og vatnsvernd vegi þyngra en þau neikvæðu áhrif sem verða á gróður, jarðfræði og náttúruminjar og á það við um báðar veggerðir. Umhverfisáhrif 2+2 vegar með mislægum vegamótum verða meiri en umhverfisáhrif 2+1 vegar og 2+2 vegar með þröngu sniði.

Athugasemdafrestur til 15. apríl 2009

Tillaga að ofangreindri framkvæmd og skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hennar liggur frammi til kynningar frá 3. mars til 15. apríl 2009 á eftirtöldum stöðum: Á bæjarskrifstofum í Hveragerði, Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Sveitarfélaginu Ölfusi og á þjónustustöð Olís á Norðlingaholti við Suðurlandsveg í Reykjavík, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun.

Framkvæmdin verður kynnt með opnu húsi á eftirtöldum stöðum:
Ráðhúskaffi í Þorlákshöfn 10. mars kl 17-19 Ráðhúsinu í Hveragerði 11. mars kl 17-19 Þjónustumiðstöð Olís á Norðlingaholti við Suðurlandsveg í Reykjavík 12. mars kl 16-19

Allir hafa rétt til að kynna sér framkvæmdina og leggja fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 15. apríl 2009 til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 150 Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka