Norski veffréttamiðillinn e24.no birti í gær frétt þar sem segir að Jonas Gahr Støre utanríkisráðherra Noregs hafi talað vel um íslenska bankamenn sem „þeir norsku geti mikið lært af“, við opnun á norsk-íslenskri samkomu í Osló árið 2006. Støre segist ekki þræta fyrir orð sín.
Í frétt vefsins kemur fram að Støre hafi mært hina „ungu, framsæknu, íslensku, harðduglegu“ bankamenn sem stóðu sig „öllum framar“ í uppkaupum á fyrirtækjum í Noregi, Bretlandi og víðar. Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn voru öll með starfsemi í Noregi á þessum tíma og var samkoman meðal annars notuð til kynningar á íslensku bönkunum.
Skilanefndir Fjármálaeftirlitsins tóku yfir íslenska starfsemi íslensku bankanna í byrjun október, þegar lausafé þeirra allra þurrkaðist upp. Þeir eru nú allir í greiðslustöðvun. Það hafði víðtækar afleiðingar í Noregi meðal annars, þar sem eignir gömlu bankanna hafa nú komist í hendur nýrra eigenda.
Í sms-skilaboðum frá Støre til blaðamanna e24, Ostein Sjolie og Aleksander Nordahl, vegna orða sinna, segir Støre: „Það stendur sem stendur. „Ég þræti ekki fyrir [...] að þeir voru duglegir í uppkaupum á fyrirtækjum.“