Geir: Leikurinn hafinn

Jóhanna Sigurðardóttir og Geir H. Haarde á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir og Geir H. Haarde á Alþingi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í kosningabaráttu nú þegar, samkvæmt orðum Geirs H. Haarde formanns, á Alþingi í dag. Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar flutti frumvarp fyrir hönd fjögurra flokka á Alþingi um breytingar á kosningalögum og veitti Geir andsvar þar sem hann sagði kosningabaráttuna hafna.

Sagði Geir að þar sem formenn stjórnarflokkanna hafi tilkynnt að kosningar verði 25. apríl sé kosningabaráttan í raun hafin. ,,Leikurinn er hafinn," sagði Geir. ,,Það er búið að flauta til leiks." Flokkarnir séu nú að undirbúa sig miðað við þessa tímasetningu.

Þá sagði Geir að ekki hefði verið leitað samráðs við Sjálfstæðisflokkinn vegna málsins, en venjan sé sú að leita samráðs við alla flokka. Hann viðurkenndi að leitað hefði verið eftir stuðningi flokksins við málið, en hins vegar ekki óskað eftir neinni gagnrýni eða gagntillögum um efni þess. Það sé ekki hægt að kalla samráð.

Þá vitnaði Geir til tilmæla og ráðlegginga Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) þess efnis að ekki eigi að breyta kosningalöggjöf síðasta árið fyrir kosningar. ,,Ætla menn að hafa þessar ráðleggingar algerlega að engu?" spurði Geir.

Lúðvík hélt því hins vegar fram að breytingin væri ekki stórfelld. Einungis væri verið að gefa flokkum möguleika á því að leyfa kjósendum að raða frambjóðendum á lista þegar þeir kjósa, líkt og í prófkjörum. Ekki væri í frumvarpinu fólgin nein breyting sem truflaði starf þeirra flokka sem væru búnir að ákveða hvernig þeir ætluðu að stilla upp sínum frambjóðendum.

Þingflokksformenn Samfylkingar, Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins, eru flutningsmenn frumvarpsins þar sem m.a. er gert ráð fyrir heimild til svonefnds persónukjörs, þ.e. að flokkar raði frambjóðendum á framboðslistum ekki niður í sérstaka röð og kjósendir geti raðað framjóðendum upp. Sjálfstæðisflokkurinn stendur hins vegar ekki að frumvarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert