Sjúklingar geta nú pantað heimsókn til læknis á netinu, bólusetningar fyrir ferðir til framandi landa eða látið endurnýja lyfseðla. Enn sem komið er endurnýjar fólk lyfseðlana sér að kostnaðarlausu og heimsókn til læknis eftir vanalegan stofutíma er ódýrari en á læknavaktinni.
Það er einfalt að bóka tíma á netinu. Heimasíðan heitir doktor.is. Fyrst velur maður þjónustuna, vaktlækni, lyfseðil eða bólusetningu, gefur upp umbeðnar upplýsingar og staðfestir skilmála. Síðan er hægt að velja um lausa tíma hjá lækninum eða apótek þar sem hann vill sækja lyfin.
Teitur Guðmundsson framkvæmdastjóri Heilsuverndar segir doktor.is. gjarnan vilja fá fleiri sjúkrastofnanir í tímabókunarkerfið á netinu en í dag eru það einungis læknar frá fyrirtækinu Heilsuvernd sem starfar í samvinnu við vefsíðuna. Og telur að jafnvel verði hægt að auka þjónustuna á netinu og gera sjúklingum kleift að hafa bein samskipti við lækni eða hjúkrunarfræðing á netinu.
Læknar Heilsuverndar starfa utan sjúkratryggingakerfisins enn sem komið er þótt stefnt sé að því að ná samningum við heilbrigðisyfirvöld. Margir þeir sem notfæra sér þjónustuna eru útlendingar sem starfa hér tímabundið.
Rétt er að taka fram að lyfseðlar eru oftast nær einungis gefnir út til fólks sem hefur fengið þeim ávísað áður hjá lækni. Ekki eru gefnir út lyfseðlar á netinufyrir sýklalyfjum, ávanabindandi, eftirritunarskyldum eða þríhyrningsmerktum lyfjum. Læknar hjá Heilsuverndinni hafa aðgang að sjúkraskrárkerfinu Saga sem inniheldur sjúkraskrár þeirra sem notfæra sér þjónustuna.