Fréttaskýring: Lánastofnanir ráða yfir í Icelandair

Vél Icelandair yfir Reykjavíkurflugvelli.
Vél Icelandair yfir Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Staða stærstu hluthafa Icelandair Group hefur versnað mikið frá því bankarnir hrundu í október, með hröðu gengisfalli krónunnar í kjölfarið. Skuldir eignarhaldsfélaga, sem eru á meðal stærstu hluthafa félagsins, hækkuðu mikið á sama tíma og botninn fór endanlega úr hlutabréfamarkaðnum. Fram að falli bankanna hafði staða félaganna versnað dag frá degi allt síðasta ár.

Stærstu hluthafarnir í slæmri stöðu

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ráða lánveitendur Langflugs og fjárfestingafélagsins Máttar, sem eru stærstu hluthafar Icelandair með samtals 47 prósent hlut, alfarið yfir félögunum. Langflug er að 2/3 hluta í eigu FS7, félagi Finns Ingólfssonar, og 1/3 hluta í eigu fjárfestafélagsins Giftar. Landsbankinn og NIB, sem stofnaður var utan um innlenda starfsemi Landsbankans þegar hann féll, hafa raun tekið yfir Langflug vegna mikilla skulda sem fyrirsjáanlegt er að það geti ekki borgað.

Hjá fjárfestingafélaginu Mætti eru Glitnir og ríkisbankinn Íslandsbanki, sem stofnaður var utan um innlenda starfsemi Glitnis við fall bankans, stærstu lánveitendurnir og ráða þeir í raun yfir félaginu. Íslandsbanki hefur mestra hagsmuna að gæta. Máttur er í eigu Milestone, félags bræðranna Karls og Steingríms Wernerssona, og fjárfesta sem tengdir eru Einari Sveinssyni og fjölskyldu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur Íslandsbanki þegar komið þeim skilaboðum til Gunnlaugar Sigmundssonar, framkvæmdastjóra Máttar og stjórnarformanns Icelandair Group, að hann stýri félögunum áfram þrátt fyrir erfiðleika, þangað til tímabært er að taka félögin yfir og leysa úr vandamálum þeirra. Staða Milestone er í raun þannig að lánveitendur félagsins ráða yfir því vegna slæmra skuldastöðu félagsins. Þegar er byrjað að leysa upp eignasafn félagsins eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu.

Naust ehf. er einnig í eigu fjárfesta sem tengdir eru Einari og fjölskyldu hans. Staða þess félags er tvísýn en þó ekki eins slæm og Langflugs og Máttar, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Bankinn hjálpar til í lausafjárerfiðleikum

Þá hefur Sparisjóðabanki Íslands, sem starfar á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu vegna slæmrar eiginfjárstöðu, tekið yfir hlut Urðar ehf. sem var áður í eigu Ómars Benediktssonar. Félag hans þoldi ekki höggið í október og tók stærsti lánveitandi þess yfir 9,36% hlut hans í Icelandair Group fyrir skömmu. Ómar fór úr stjórn Icelandair Group 2. mars og er nú í varastjórn félagsins. Sparisjóðabankinn starfar óbeint á ábyrgð ríkisins vegna skulda hans við íslenska ríkið, vegna svokallaðra veðlána frá Seðlabanka Íslands. Þær eru taldar nema um 100-150 milljörðum króna. Sparisjóðabankinn hefur fengið frest til greiða þessa skuld þar sem hann hefur ekki burði til þess sem stendur.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur þegar verið um það rætt á meðal lykilstarfsmanna í ríkisbönkunum og í fjármálaráðuneytinu, að Icelandair verði eitt þeirra félaga sem geti lent í eignaumsýslufélagi á vegum ríkisbankanna, komi til þess að sá háttur verði á þegar kemur að umsjá með fyrirtækjum sem teljast samfélagslega mikilvæg. Nú þegar hafa lánastofnanir umráðarétt yfir a.m.k. 67 prósent að hlutafé í félaginu. Lífeyrissjóðirnir Stafir og Almenni lífeyrissjóðurinn eiga lítinn hlut, eða samtals um 1,5 prósent.

Eins og mörg fyrirtæki hér á landi þá hefur Icelandair glímt við lausafjárerfiðleika frá því í haust. Íslandsbanki hefur aðstoðað félagið við að viðhalda lausafjárstöðu í nóvember, desember, janúar, og febrúar svo það geti greitt laun og reikninga á réttum tíma. Ekki hefur alltaf tekist að greiða launin á réttum tíma, en þau hafa þó skilað sér eftir eins eða tveggja daga seinkun.

Mikið tap en rekstrargundvöllur talinn „sterkur“

Tap Icelandair Group á síðasta ári nam 7,5 milljörðum samanborið við 257 milljóna króna hagnað árið 2007. Rekstrartekjur og gjöld jukust til mikilla muna á milli ára. Meðal annars vegna þess að tékkneska félagið Travel Service kom inn í samstæðureikning félagsins á síðasta ári og skýrir það aukninguna að hluta. Rekstrartekjur fóru úr 63,5 milljörðum í 112,7 milljarða. Rekstrargjöldin fóru úr 158 milljörðum í 107,9 milljarða. Gunnlaugur Sigmundsson sagði á aðalfundi félagsins að hugmyndir hefðu komið fram um að félagið yrði afskráð en engar endanlegar ákvarðanir hefur verið teknar um það.

Stór hluti tapsins skýrist af afskriftum á óefnislegum eignum, einkum viðskiptavild. Afskriftirnar námu alls 10,5 milljörðum þar af voru 6,4 milljarðar vegna viðskiptavildar.

Ferðir sem eiga uppruna sinn hér á landi til útlanda á vegum Icelandair hafa minnkað mikið eftir hrun bankanna, eða um allt að 50 prósent samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Hins vegar hefur tekist að halda tekjum af flugum til landsins samkvæmt áætlunum, þrátt fyrir að umferð um Keflavíkurflugvöll hafi minnkað mikið. Samkvæmt heimildum hafa stjórnarmenn Icelandair fulla trú á því að rekstrargrundvöllur fyrirtækisins sé sterkur til framtíðar þrátt fyrir þær miklu hremmingar sem félagið er að ganga í gegnum þessa dagana.

Hér á myndinni má sjá stærstu hluthafa í Icelandair Group.
Hér á myndinni má sjá stærstu hluthafa í Icelandair Group.
Karl Wernersson. Staða félags hans og Steingríms bróður hans, Milestone, …
Karl Wernersson. Staða félags hans og Steingríms bróður hans, Milestone, er slæm.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert