Bankaleynd verður afnumin með öllu

Hvorki eftirlitsstofnanir, skilanefndir gömlu bankanna né nýju bankarnir þrír geta borið fyrir sig bankaleynd ef sérstakur saksóknari um efnahagshrunið óskar eftir upplýsingum frá þeim, verði nýtt frumvarp um starfsemi hans að lögum.

Í frumvarpinu, sem var samþykkt í ríkisstjórn á föstudag og Morgunblaðið hefur undir höndum, eru heimildir embættis sérstaks saksóknara til upplýsinga- og gagnaöflunar rýmkaðar umtalsvert. Frumvarpið verður að öllum líkindum lagt fram fyrir vikulok.

Embætti sérstaks saksóknara hefur samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ekki getað sinnt neinni frumkvæðisvinnu hingað til heldur verið einskorðað við að taka við málum sem Fjármálaeftirlitið (FME) sendir því til frekari skoðunar. Allar ábendingar sem hafa borist inn til embættisins hefur það því þurft að senda til FME til frekari skoðunar. FME hefur hins vegar ekki þurft að afhenda sérstökum saksóknara gögn sem tengjast ekki beint rannsókn á sakamálum. Með öðrum orðum hefur sérstakur saksóknari þurft að sýna fram á grun um refsiverða háttsemi áður en að hann fær gögn frá eftirlitinu, en hefur ekki getað byggt slíkar grunsemdir á þeim gögnum. Þetta mun breytast verði frumvarpið að lögum. Verði frumvarpið ekki samþykkt er hins vegar ljóst að embætti hins sérstaka saksóknara mun einskorðast við að taka við málum sem FME sendir því.

Í minnisblaði Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra til stjórnarþingflokkanna kemur fram að ráðherrann telji að lögin um hinn sérstaka saksóknara „nái ekki þeim tilgangi sínum að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í tengslum við hið svokallaða bankahrun, ef reglur um þagnarskyldu standa því í vegi að hann fái aðgang að upplýsingum eða gögnum sem hann telur að geti gagnast embættinu við störf sín. Heimild [sérstaks saksóknara] til afhendingar gagna er óháð því að meint brot hafi verið kærð til lögreglu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka